131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[13:45]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við höfum fengið innsýn í vinnubrögð íslenskra einokunarfyrirtækja. Vissulega er ekki hægt að alhæfa út frá vinnubrögðum íslensku olíufélaganna um vinnubrögð almennt í einokunarumhverfi en tilhneigingin í slíku umhverfi er augljós. Hjá einokunarfyrirtækjum sem eru rekin með hagnað að markmiði er líklegt að þau nýti sér umhverfi sitt til hins ýtrasta, jafnvel þótt ekki sé um að ræða alvarleg lögbrot eins og í þessu tilviki.

Olíufélögin eru talin hafa valdið þjóðhagslegu tjóni sem nemur yfir 40 milljörðum króna. Þau hafa stolið milli 5 og 10 milljörðum af einstaklingum, fjölskyldum, fyrirtækjum, útgerðinni í landinu, sveitarfélögum og ríkisstofnunum. Á máli samkeppnisráðs heitir þetta að ávinningur olíufélaganna af samráði sé um 6,5 milljarðar króna.

Nú spyr ég: Hvað er að gerast annars staðar í einokunarumhverfi? En fyrst og fremst er ástæða til að spyrja í þessum sal: Hvað er að gerast í höfði ráðherra ríkisstjórnarinnar? Hvaða lærdóm skyldi hún draga af þessu máli? Boðorð hennar númer eitt, tvö og þrjú er að koma öllum arðvænlegum eignum þjóðarinnar í hendur þessara aðila, inn í einokunarumhverfið.

Hæstv. viðskiptaráðherra flutti hér tilfinningaþrungna ræðu um ágæti markaðsbúskapar. Ég spyr: Hvaða lærdóm dregur hún? Á áfram að berja höfðinu við steininn eða verður breytt um kúrs?