131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[13:54]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur ríkt mikil reiði í þjóðfélaginu í kjölfar úrskurðar Samkeppnisstofnunar um samráð olíufélaganna. Það er eðlilegt enda ljóst að þetta mál snertir alla í landinu á einn eða annan hátt.

Við hljótum þó að fagna því að samkeppnislögin og samkeppnisyfirvöld okkar eru að virka. Verkefnið var afar viðamikið og hafa margir gagnrýnt hversu langan tíma það tók. Sú gagnrýni á rétt á sér en þó hafa framlög til stofnunarinnar aukist í ráðherratíð hæstv. viðskiptaráðherra og sjáum við nú að Samkeppnisstofnun ræður vel við erfið mál. Ég tel þó að áfram þurfi að efla hana og verða tillögur þar að lútandi ræddar hér í þinginu á næstu mánuðum.

Ég skil vel viðbrögð fólks við úrskurðinum. Allt lítur út fyrir að olíufélögin hafi hlunnfarið heimilin í landinu og ekki síst á landsbyggðinni þar sem komið var í veg fyrir alla samkeppni. Útgerðirnar sem tengjast mörgum fjölskyldum beint fara afar illa út úr þessu samráði og kannski gera ekki allir sér grein fyrir því að sjómenn taka sjálfir þátt í því að greiða olíukostnað skipanna. Þarna er verið að tala um gríðarlegar upphæðir og á næstu dögum eigum við án efa eftir að sjá fleiri útreikninga ýmissa samtaka um hversu mikið þau telja sig eiga inni hjá olíufélögunum.

Ég leiði hugann að því hvort svona staða sé uppi á fleiri sviðum markaðarins. Meginmálið er þó að samkeppnislögin eru að virka og þjóðin mun ekki líða ólögmætt samráð fyrirtækjanna í landinu.