131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[13:58]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Á undanförnum 10–15 árum hefur það gerst í þessu landi að okkur hefur tekist að umbreyta öllu viðskiptaumhverfi Íslands, örugglega þjóðinni til mikillar blessunar. Þetta leiðindamál sem er til umræðu nú hér og í þjóðfélaginu, sagan um olíufélögin, er örugglega einhverjar eftirhreytur af þeim miklu umbreytingum. Það virðist vera sem þessi félög hafi alls ekki getað áttað sig á því hvað var að gerast og haldið sig í gamla farinu, haldið sig við gamla samráðið.

Það er hið hörmulega og ber að segja það eins og er, auðvitað er þetta hörmulegt. Íslensk lög ná yfir alla. Við höfum fulla ástæðu til að treysta íslenskum eftirlitsstofnunum. Við höfum fulla ástæðu til að treysta íslenskri lögreglu, íslensku ákæruvaldi og ekki hvað síst íslenskum dómurum. Þetta mál mun ganga fram eins og lög gera ráð fyrir og við skulum vita að auðvitað er engin miskunn ef menn hafa brotið þessi lög.

Hins vegar ætla ég að segja að ég sé enga ástæðu til þess og kem ekki auga á það hví við ættum að nota þetta mál til að vera með einhver pólitísk hnútuköst, ég get ekki komið auga á það. (Gripið fram í.) Þetta er hörmulegt mál sem við skulum harma eins og alltaf á að gera þegar samborgaranum verður eitthvað á og brýtur lög. (Gripið fram í: Nú?) Ég sé ekki heldur ástæðu til þess hér á þessum stað að einstakir stjórnmálamenn séu að nota tækifærið til að kasta og sparka í þá sem liggja.