131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[14:00]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er vægast sagt dapurleg upplifun að lesa það sem kemur fram í skýrslu Samkeppnisstofnunar um ólögmætt samráð olíufélaganna. Þetta samráð hlýtur að teljast eitt alvarlegasta tilræði sem framið hefur verið gegn efnahagskerfi þjóðarinnar. Árum saman hafa menn stundað kaldrifjað misferli þar sem þjóðin hefur verið blekkt og niðurlægð.

Það er nánast sama hvar gripið er niður í skýrsluna, misferlið hefur bitnað á okkur öllum. Almennir borgarar, fyrirtæki, sveitarfélög og opinberar stofnanir, allir hafa verið arðrændir markvisst og skipulega af þessum olíufélögum, ekki síst landsbyggðin þar sem olíufélögin notuðu einokunaraðstöðuna til að skipta eldsneytismörkuðum á milli sín og svindluðu á sjávarútvegsfyrirtækjunum sem eru burðarásar byggðanna. Gríðarlegir fjármunir hafa verið plokkaðir af byggðunum í skjóli verðsamráðs, fjármunir sem hefðu getað farið til að greiða fólki hærri laun eða til að stuðla að uppbyggingu í héruðum landsins. Enginn vafi leikur á því að efnahagur landsmanna hefur borið þungan skaða af þessu.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar vekur margar alvarlegar spurningar um íslenskt efnahagslíf. Það er jú öllum ljóst að þeir sem hljóta að bera höfuðábyrgðina í þessu máli eru meðal áhrifamestu manna viðskiptalífsins. Ég er að tala um forstjóra, stjórnarformenn og stjórnarmenn olíufélaganna. Í þessum hópi eru menn sem margir hverjir hafa bein tengsl við innstu kjarna stjórnmálaflokka á borð við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.

Frú forseti. Við hljótum að krefjast þess að þeir sem hafa borið ábyrgð á þessu samráði verði látnir svara fyrir misgjörðir sínar, að þeir verði dregnir til ábyrgðar. Við, þjóðin öll, treystum þessum mönnum þó að mörg okkar hafi grunað að pottur væri brotinn í verðmyndun olíufélaganna. Fáa eða enga grunaði þó að svik þeirra væru jafnvíðtæk og nú hefur komið á daginn. Hér verður að stinga djúpt svo notað sé orðatiltæki úr heimi olíugreifanna. Það er réttmætt að beita olíufélögin þungum stjórnvaldssektum og þeir fjármunir ættu að fara óskertir til samgöngubóta. Síðan á að draga forstjóra, stjórnarformenn og stjórnarmenn olíufélaganna til ábyrgðar.