131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[14:09]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það hefur komið fram í henni og reyndar í fjölmiðlum líka að Samfylkingin hafi óskað eftir rannsókn á samráði olíufélaganna árið 1997 en stjórnvöld hafnað því. Hér finnst mér vera fært nokkuð í stílinn því að hið rétta er að Samfylkingin óskaði á sínum tíma eftir skýrslu frá viðskiptaráðherra um viðskipta- og samkeppnishætti í banka-, olíu-, trygginga- og flutningaviðskiptum. Slík skýrslugerð hefði ekki orðið grundvöllur húsleitar og síðan stjórnvaldssekta (Gripið fram í.) og hefði í raun ekki byggt á samkeppnislögum ef farið hefði verið í þá vinnu.

Samkeppnisstofnun er algjörlega sjálfstæð stofnun og hún tekur ekki við fyrirmælum. Sama er að segja um Fjármálaeftirlitið af því að það var nefnt hér af hv. þingmönnum. Fjármálaeftirlitið er sjálfstætt og það tekur heldur ekki við fyrirmælum hvorki frá mér né hv. Alþingi.

Það er athyglisvert að þingmenn Samfylkingarinnar tala í öðru orðinu um mikilvægi sjálfstæðis eftirlitsstofnana en í hinu orðinu að ýmist ég sem viðskiptaráðherra eða Alþingi eigi að beina tilmælum til þessara stofnana um að fara út í eitt og annað.

Ræður hv. þingmanna Vinstri grænna voru hefðbundnar, þeir eru á móti frjálsum markaði, frjálsu markaðskerfi (Gripið fram í.) og eru u.þ.b. að verða eini flokkurinn í Evrópu sem hefur þá stefnu. (Gripið fram í.) Nú held ég að hv. þingmönnum sé farið að líða svolítið illa, en það sem ég vil þó enda á að segja er það að eins og kom fram í máli mínu áðan hefur sú ákvörðun verið tekin af hálfu stjórnvalda að efla samkeppniseftirlit í landinu og á næstu dögum munu frumvörp birtast sem (Forseti hringir.) fela í sér þá tillögu og ég er ákaflega stolt af því.