131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:22]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni um skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar til þessa eru margar góðar fyrirætlanir settar á blað í skýrslu hæstv. ráðherra. Ef ég rifja aðeins upp helstu markmiðin með áætluninni eru þau eftirfarandi, með leyfi forseta:

„a. Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.

b. Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.

c. Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.

d. Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífsstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.

e. Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.

Lagt var til að þær aðgerðir sem beitt yrði til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunar byggðust á eftirtöldum meginstoðum: Traustu og fjölbreyttu atvinnulífi, öflugum byggðarlögum, aukinni þekkingu og hæfni, bættum samgöngum og áherslu á sjálfbæra þróun.“

Þetta eru vissulega fín markmið og frábært ef maður hefði séð að að þeim hefði verið unnið að einhverju marki undanfarin ár. Það er þó svo að mér ofbýður við þennan lestur og mér er skapi næst að kasta skýrslunni frá mér. Mér dettur í hug: Er verið að draga dár að fólki? Við skulum hafa í huga að við erum að fjalla hér um áætlun sem nær yfir tímabilið 2002–2005, tímabil sem er að verða lokið. Maður skyldi því ætla að verkefnin og fyrirætlanirnar væru komnar vel á veg og að þeirra sæi stað um land allt. Þessi byggðaáætlun á að vera fyrir allt landið, ekki satt?

Því miður er staðan sú eftir að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa haft byggðamál í sínum höndum í tíu ár, allt of langan tíma, að byggð er að hruni komin á heilu landsvæðunum og á þeim sömu stöðum býr fólk víða við sára fátækt. Ráðherra byggðamála kannast reyndar ekkert við að til séu nein sérstök svæði þar sem meðaltekjur eru áberandi lægri en meðaltekjur á Íslandi. Það kom fram í viðræðum sem ég átti við hana á síðasta þingi.

Því sárar er að hlusta á hæstv. ráðherra sem hafa tekið þátt í umræðunum hér. Hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, talar eins og allt sé í himnalagi í landbúnaðarmálum og hæstv. byggðamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, lætur eins og það sé helber ósanngirni að minna hana á þá ábyrgð sem hún ber á byggðaþróun, á þeim afdrifaríku afleiðingum sem aðgerðaleysi, afskiptaleysi og rangar ákvarðanir í skattamálum og samgöngumálum, svo eitthvað sé nefnt, hafa í för með sér.

Hér hafa verið rakin áhrif skattbreytinga til aukinnar mismununar á aðstöðu fyrirtækjarekstrar á suðvesturhorninu andspænis landsbyggðinni. Það gerði hv. þm. Kristján Möller. Þessum hæstv. ráðherrum sem ég nefndi hér kemur það víst ekkert við.

Líka hefur verið rakið hvernig framkvæmdir í vegamálum hafa verið dregnar saman og verða dregnar saman á næstu árum, samtals um 4 milljarða á næstu tveim árum þrátt fyrir það að þessir sömu hæstv. ráðherrar og allir ráðherrar viti að engar aðgerðir eru líklegri til að treysta byggð en einmitt samgöngubætur. Ráðherrann veit líka að til þess að atvinnurekstur blómstri um allt land þarf að jafna samkeppnisstöðu.

Mér barst bréf nýlega, afrit af bréfi til Símans, þar sem íbúar og aðstandendur atvinnufyrirtækja við Ísafjarðardjúp óskuðu eftir að mark yrði tekið á umleitan þeirra og bréfum sem þeir hafa skrifað á undanförnu þrem og hálfu ári, fyrst fyrir þrem og hálfu ári og margítrekað, um að þeim yrði komið í viðunandi tengingu við umheiminn þannig að þeir gætu rækt atvinnustarfsemi sína á sambærilegan hátt og aðrir landsmenn sem búa á þéttbýlissvæði, stundað nám og fleira sem einmitt er verið að minnast á hér sem forsendur þess að byggðaþróun geti orðið viðunandi. Þessu hefur ekki verið svarað.

Það hefur komið fram í umræðum á Alþingi að ráðherrar telja það ekki hlutverk sitt að skipta sér af starfsemi Símans vegna þess að hann sé orðinn hlutafélag. Það er eftir sem áður svo, herra forseti, að Síminn er að stærstum hluta til í eigu okkar landsmanna allra og það er samgönguráðherra sem fer með hlutabréf ríkisins. Það hlýtur því að vera hlutverk ríkisstjórnarinnar að ýta við þessu fyrirtæki ef það er raunverulega meining ráðherranna að það eigi að koma lagi á samgöngumál, bæði í lofti og á láði.

Við þekkjum stöðu sveitarfélaganna. Þau eru látin engjast árum saman. Þróun í land- og sjóflutningum er látin fara eins og verða vill og reyndar beinlínis stuðlað að því að flutningur færist alfarið á land með óhagstæðum flutningsjöfnunargreiðslum og olíugjaldi sem mismunar bifreiðaeigendum. Afleiðingar þess eru mikil mengun, stóraukin hætta á vegum sem eru alls ekki undir það búnir eða fyrir það byggðir að flytja svona mikla umferð á þeim og þunga, mikill aukakostnaður fyrir fyrirtæki landsins, tilheyrandi verðhækkanir á vöru og stóraukið slit vega.

Það kom fram í rannsókn Tinnu Finnbogadóttur, sem er nemi við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, að flutningar á landi eru allt að 340% dýrari en flutningar á sjó. Vegslit af völdum bifreiða, 10 tonna og þyngri, er miklu meira og alvarlegra þar sem þessar bifreiðar mylja undirlag veganna miklu verr en bifreiðar, 4 tonna og léttari, og gjaldið sem er sett á þessar bifreiðar er ekki í neinu samræmi við það slit sem af þeim hlýst.

Ríkisstjórnin hefur ríkar ástæður og full efni til þess að hafa hönd í bagga og stýra því hvernig flutningar fara fram á landi og í kringum landið, á láði eða á legi. En þetta kemur þeim víst ekkert við frekar en annað.

Hæstv. ráðherra hefur það fyrir sið þegar ég ræði við hana um byggðamál að minna mig á að Byggðastofnun var flutt til Sauðárkróks. Ráðherrann telur sjálfsagt að hún stingi upp í okkur þingmenn með því að minna á þau örfáu dæmi sem hægt er að finna um aðgerðir og uppbyggingu utan Akureyrar og Miðausturlands. Svo er þó hreint ekki og gagnrýni okkar beinist, svo það sé skýrt tekið fram, ekki að því sem verið er að gera á Akureyri og Miðausturlandi. Það er hreint ekkert of mikið. En það þarf að hafa hönd í bagga víðar og það má ekki láta fólk engjast í óvissu árum saman.

Ég tók eftir því ásamt mörgum fleirum að um leið og Byggðastofnun var flutt norður á Sauðárkrók voru settar á fót tvær stofnanir á Akureyri sem hafa með höndum sams konar verkefni og Byggðastofnun er ætlað að hafa. Ég hefði hins vegar talið eðlilegt og ákjósanlegra að Byggðastofnun sjálf væri efld til frekari verka en að útdeila verkum og verkefnum til annarra og hugsanlega gera Byggðastofnun óþarfa með tímanum. Ég vona að það sé ekki ætlun hæstv. ráðherra því að þá væri illa farið með fé skattborgaranna og óorði komið á flutning ríkisstofnana út á land.

Það er líka augljóst að ef tryggja á að Byggðastofnun geti sinnt þeim verkefnum sem henni er ætlað þarf að auka möguleika hennar á styrkveitingum í stað lána. Það er nefnilega þannig, hæstv. ráðherra, að á ýmsum svæðum landsins er ekki til fjármagn til að standa undir nýsköpun og stofnsetningu fyrirtækja. Þetta á ráðherrann reyndar að vita. Það er ekki hægt að krefja um mótframlag þegar engir peningar eru til og það kann einmitt að vera meðal skýringa á því að færri umsóknir komu úr Norðvesturkjördæmi en úr kjördæmi hæstv. byggðamálaráðherra í 700 millj. kr. sem rætt er um í skýrslunni sem við erum að fjalla um, 700 millj. kr. sem veittar voru til uppbyggingar eða sérstaks átaks í atvinnumálum fyrir síðustu kosningar.

Jafnframt þarf að efla atvinnuráðgjöf á svæðum en ekki planta fleiri ráðgjöfum niður á Akureyri þó að þeir sem þar starfa séu allir góðra gjalda verðir. Nýlega gengu einmitt á fund fjárlaganefndar aðilar úr Norður-Þingeyjarsýslu sem sárvantar liðsstyrk, vantar eitt stöðugildi í viðbót til að geta sinnt þeim verkefnum við atvinnuuppbyggingu sem fyrir liggja.

Ég man líka að búið er að flytja Landmælingar ríkisins til Akraness. Það er mál þeirra sem til þekkja að afar vel hafi tekist til enda hafa heimamenn lagt sig fram um að greiða götu stofnunarinnar. Nú er hins vegar gert ráð fyrir stórskertum framlögum til hennar í frumvarpi til fjárlaga. Gert er ráð fyrir að felld verði niður 30 millj. kr. fjárveiting til kortagerðar stofnunarinnar en það er verkefni sem var gerður samningur um í stefnumótun hennar og hluti af árangursstjórnarsamningi sem var gerður við hana í upphafi. Það er ljóst að ef staðið verður við þetta ákvæði í fjárlögum mun þessi stofnun þurfa að segja upp fjölda manns.

Það liggur við að manni falli allur ketill í eld þegar maður stendur frammi fyrir svona vinnubrögðum, og hvað á maður eiginlega að halda? Fylgir enginn hugur máli þegar verið er að koma starfsemi fyrir utan Reykjavíkur?

Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra sýni þess merki að hún þekki aðstæður á Íslandi öllu og láti sig varða hvernig hagur fólksins er. Hún verður að beita áhrifum sínum á þeim svæðum landsins sem virkilega er þörf fyrir og vinna í þeim anda sem þessi byggðaáætlun sem við erum að tala um hér er sett fram í. Markmiðin eru virkilega góð eins og ég sagði í upphafi máls míns. Íbúum næstum alls Norðvesturkjördæmisins, íbúum norðausturhornsins og á suðausturhorni landsins, svo eitthvað sé nefnt, hlýtur að þykja nóg um afskiptaleysi hæstv. ráðherra. Þeir bíða óþreyjufullir eftir að hún sýni þess merki að hún þekki til aðstæðna þar og vilji láta til sín taka í anda byggðaáætlunar sem nú hefur bráðum runnið sitt skeið. Vonandi fáum við að sjá næstu áætlun í góðum anda líka og áætlun sem betur verður framfylgt en þeirri sem hér er til umræðu.