131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:38]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra verður bara að meta það sem hroka ef henni finnst það vera hrokafullt sem ég hef sagt í dag. Það er einfaldlega þannig að mér svíður að sjá afskiptaleysi ráðherrans af stórum svæðum landsins sem ég fer um. Ég veit að umbjóðendur mínir í Norðvesturkjördæmi eru mér hjartanlega sammála um að lítið verði vart við aðgerðir af hálfu ráðherrans og ráðuneytis hennar í því kjördæmi.

Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni áðan að ég teldi ekki að neitt væri ofgert, hvorki á Miðausturlandi né á Akureyri, þannig að það er ekkert hægt að snúa neinu upp á mig í þeim efnum. Það er vissulega gott að byggja upp á Akureyri og í Eyjafirði en það þarf að líta víðar við. Þó að ég segi að það þurfi að líta víðar við þýðir það ekki að ég telji neitt ofgert á Akureyri eða á Miðausturlandi, þvert á móti.

Mér finnst að það eigi að sinna málum áður en heilu landsvæðin eru komin að fótum fram en þannig er ástandið að verða mjög víða á landinu.