131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:09]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég flutti hér ræðu við umræður um þetta mál fyrir viku þar sem ég fór fyrst og fremst í gegnum þau atriði sem lúta að samkeppnishæfni byggðanna. Það eru grunnstoðir atvinnulífsins og búsetunnar um allt land sem skipta meginmáli. Einstakar sértækar aðgerðir eiga að vera í algjöru lágmarki, eiga bara að vera til að grípa til ef einhver áföll eða eitthvert sérstakt átak er í gangi, en hinn almenni grunnur verður fyrst og fremst að vera fyrir hendi.

Fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga er nýafstaðin þar sem mjög greinilega kom fram sú erfiða staða sem mörg sveitarfélög eru í vegna þess að ríkisvaldið heldur þeim með skipulegum hætti í fjársvelti. Stöðugt fleiri verkefni eru færð til sveitarfélaganna án þess að þeim fylgi fjármagn. Verkefnin eru bæði lúmskt færð til þeirra og einnig með því að ríkið stendur ekki með eðlilegum hætti við þá samninga og samskipti sem hefur verið gengið út frá að væru milli þessara aðila.

Ég spyr hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og byggðamálaráðherra hvort ríkisstjórnin sé með í bígerð eitthvert sérstakt átak til að jafna og styrkja tekjugrunn sveitarfélaganna til að þau geti axlað þau samfélagslegu verkefni sem þeim er falið samkvæmt lögum. Ég held að eitt hið mikilvægasta núna í byggðamálum sé að það verði gert. Verði það ekki gert skipta litlu máli einstakar sértækar aðgerðir sem hæstv. ráðherra beitir sér fyrir í einhverjum gæluverkefnastíl eins og vinnulagið hefur verið hjá hæstv. ráðherra innan þess málaflokks sem hún hefur og sem kallast byggðamál.

Það eru þessi stóru atriði sem skipta máli. Verði tekjugrunnur sveitarfélaganna ekki styrktur verður mönnum mikill vandi á höndum og erfitt að ætla að bæta það upp með einhverjum sértækum aðgerðum.

Annað mál sem hæstv. ráðherra hefur líka farið í kringum eins og heitan graut er flutningsjöfnunarmálin. Við erum búin að ræða þetta hér á undanförnum þingum. Skýrslur hafa verið unnar, a.m.k. tvær frekar en ein, ef ekki þrjár, sem sýna fram á gríðarlega hækkun á flutningskostnaði á vörum úti um allt land, langt umfram verðlagsþróun og þrátt fyrir að flutningsfyrirtækin telji sig hafa verið að vinna stórátak í hagræðingu, hætta strandsiglingum og telji sig hafa unnið að hagræðingu. Samt stórhækkar flutningskostnaður. Eitt af kosningamálum Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar var að það átti að lækka og jafna flutningskostnaðinn. Við fáum kannski að heyra það aftur fyrir næstu kosningar að það sé áfram á stefnuskrá Framsóknarflokksins. Þetta er mál sem hæstv. byggðamálaráðherra er með á sínum höndum nú — og ekkert gerist. Við fengum jú umræðuna um olíufélögin hér áðan og skýrslu Samkeppnisstofnunar sem sýnir að olíufélögin hafa með skipulegum hætti haldið uppi verði á olíu sem hefur komið einmitt hart niður á flutningsaðilunum. Áttu ekki sömu aðilar þá líka eignarhlutinn í sumum flutningsfyrirtækjunum? Hvernig ætlar hæstv. iðnaðarráðherra að ná þessu til baka, þessum ofteknu gjöldum á flutningana í landinu?

Hvað líður þeim aðgerðum sem hæstv. ráðherra ætlaði að beita sér fyrir varðandi flutningsjöfnunina? Því er svarað hér að þetta sé í einhverju þjarki við einhvern dómstól eða í einhverri nefnd úti í Brussel. Það er mjög auðvelt að skjóta sér á bak við svoleiðis en ekki stórmannlegt. Þetta skiptir máli.

Jöfnun á námskostnaði. Sérstakur sjóður á að jafna kostnað námsmanna í framhaldsnámi. Nemendur sem þurfa að fara um langan veg frá heimilum sínum í framhaldsskóla geta sótt í hann. Sú fjárhæð stendur gjörsamlega í stað, hún fylgir ekki einu sinni verðbólgu, hvað þá að þar sé verið að auka og bæta í. Ef svo fer fram sem nú horfir samkvæmt tillögum í fjárlagafrumvarpi verður hann skertur til einstaklinga ef eitthvað er vegna þess að þeim einstaklingum fjölgar sem sækja þetta nám. Það fjölgar í þessum árgangi og samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum í fjárlaganefnd mun þörfin fyrir þetta fjármagn aukast. Hvað þá með að hækka framlagið til þessara einstaklinga?

Hvað líður því, hæstv. byggðamálaráðherra, að jafna námskostnað hjá ungu fólki? Það er aðgerð sem kemur öllum vel hvar sem þeir búa á landinu en þurfa að sækja skóla um langan veg. Hvað líður umræðunni um tónlistarskólana? Ungt fólk sem þarf að fara úr byggðum sínum til stórþéttbýlisins, hvort sem það er til Akureyrar eða Reykjavíkur, til að sækja framhaldsskóla þar vegna þess að þeir eru ekki í heimabyggð þeirra en tónlistarnám er hluti af námi þeirra.

Í fyrsta lagi verða þeir að borga stórfé fyrir að sækja slíkt nám og í öðru lagi er verið að vísa þeim þaðan út nú um áramótin. Það er ekki að furða þó að fjöldi ungs fólks verði að flytja lögheimili sitt úr heimabyggð sinni á haustin þegar það fer í skóla til þess að eiga möguleika á að sækja almenna þjónustu sem ætti að vera sjálfsögð. Ég vil inna hæstv. byggðamálaráðherra eftir því hvernig hann sé að vinna að því að jafna þennan kerfisbundna aðstöðumun sem ungt fólk af landsbyggðinni býr við og skiptir gríðarlegu máli.

Ég vil líka inna hæstv. byggðamálaráðherra eftir því hvað ráðherrann hyggst gera í sambandi við samgöngumálin. Er það liður í að styrkja byggðirnar að skera samgönguáætlun niður um 1.600–1.700 milljónir á þessu ári, um 2 milljarða á næsta ári og aðra tvo á þarnæsta ári? Er það liður í að styrkja byggðirnar? Ég held ekki. Ríkisstjórnin er að keyra fram vanhugsaðar skattalækkanir sem síðan bitna á landsmönnum með niðurskurði í samgönguáætlun. Niðurskurður samgönguáætlunar er nauðsynlegur til að vega á móti lækkun skatta sem fyrst og fremst gagnast hátekjufólki. Skattalækkanir gagnast ekki almenningi úti um land, því miður. Hinar stóru byggðaaðgerðir sem ríkisstjórnin er með, eins og skattalækkanirnar, koma fyrst og fremst hátekjufólkinu til góða og það býr ekki úti um land. Og þá verður að skera niður þær framkvæmdir og þjónustu sem er virkilega til styrktar landsbyggðinni eins og samgöngumálin.

Þetta er nú stefnan í byggðamálum í hnotskurn, landsbyggðin er látin taka á sig niðurskurð í samgöngumálum til þess að bera skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Eru þetta sanngjarnar byggðaaðgerðir, skattalækkunum á fólki mætt með niðurskurði á vegaframkvæmdum úti um land?

Ég vil minnast á eitt sértækt atriði sem var til umræðu fyrr í vikunni og snýr að byggðamálum, það snertir sláturhúsin. Gert hefur verið stórátak í hagræðingu í sláturhúsum. Þeim hefur verið lokað og þau lögð niður sem átti að verða til þess að hækka verð til bænda. Sú hefur reyndar ekki orðið raunin, því miður. Heill landshluti er nú án sláturhúss, allt Norðvesturland að undanskildu litlu sláturhúsi í Króksfjarðarnesi og óvíst er hvort það verður starfrækt áfram. Sláturhúsinu í Búðardal var lokað, það fékk ekki að fara í gang á sl. hausti. Í því húsi hefði verið hægt að hafa upptökuhús fyrir stærra svæði á Vesturlandi en það var ekki gert.

En það sem er sértækt við þetta er að sláturhúsið er 95% í eigu Byggðastofnunar. Þetta er atvinnutækifæri þessarar byggðar sem hefur á undanförnum árum, þegar það hefur starfað, skaffað fólkinu sem býr þar 25–30 millj. kr. í vinnulaun. Fólk hefur getað unnið þar hlutastarf sem hefur skipt það gríðarlegu máli. Þetta hús á Byggðastofnun. En eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið lætur hún sig þetta engu varða, þessi mál eða hvernig er hægt að nýta þessa eign.

Þó stendur í þingsályktunartillögunni, en við erum að ræða árangur af henni hér, með leyfi forseta:

,,Í Dalabyggð [...] hefur fólki fækkað mikið og samdráttur verið í atvinnulífi, einkum í landbúnaði. Þetta svæði þyrfti verulegan stuðning af opinberri hálfu einungis til að treysta þá búsetu sem þar er nú fyrir hendi.“

Þetta hérað er einmitt gríðarlegt landbúnaðarhérað og treystir á það. Sem betur fer er öflug mjólkurvinnsla í Búðardal. En þarna á Byggðastofnun mannvirki sem hefur verið nýtt allt til þessa og skaffað atvinnu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, sem fer með þetta sláturhús sem er í eigu Byggðastofnunar, en Byggðastofnun heyrir beint undir ráðherrann, hún er deild í iðnaðarráðuneytinu og forstöðumaður hennar er ráðinn af iðnaðarráðherra og heyrir síðan beint undir hann, og ef ráðherrann getur ekki svarað þessu nú þá ætti hún að hugleiða spurninguna: Hvað ætlast Byggðastofnun fyrir með sláturhúsið í Búðardal? Ætlar hún að standa með heimamönnum um uppbyggingu á slátrun þar áfram eða hvernig á að nýta þessa stóru eign sem Byggðastofnun á þarna?

Við höfum falleg orð í byggðaáætlun um að gera eigi átak í að styrkja og efla atvinnulíf þarna á svæðinu, sem veruleg þörf er á, en heldur lítið hefur orðið um efndir hvað þetta varðar.

Það er sjálfsagt að koma líka að öðrum verkefnum á svæðum eins og þar en þarna er atvinnutæki sem Byggðastofnun á og því er eðlilegt að hún standi skil á því hvernig það verður best nýtt fyrir heimamenn og eigi samstarf um það með þeim.

Frú forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að breyta um kúrs í atvinnumálum á heilu landsvæðunum. Eina sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur dottið í hug er að setja álver í alla firði og á öll nes. Maður heyrir framsóknarmenn á Ísafirði tala um að það ætti að setja álver á Ísafjörð o.s.frv. Þetta er það eina sem kemst í huga hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég tel að þetta sé rangt. Það er stórhættulegt að vera með alla sína orku eða stóran hluta hennar bundna í einni atvinnugrein. Það er líka stórhættulegt að ætla að vera með brúttó útflutningstekjur sínar bundnar að stórum hluta í einni atvinnugrein. Nettó er ekki svo mikið að hafa út úr þessari álbræðslu en hún gefur stórar umsetningstölur í útflutningsgreinum.

Ég tel að á norðvestursvæðinu séu t.d. miklir möguleikar í ferðamálum. Á fundi kjördæmisþings Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi sem haldið var nú um síðustu helgi var einmitt ályktað um ferðamálin.

Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi leggur til að hafin verði stórsókn í uppbyggingu á kjördæminu sem sérstöku ferðaþjónustusvæði og gerð verði sérstök átaksáætlun til næstu fimm ára sem hafi það að markmiði að treysta grunnstoðir ferðaþjónustunnar á svæðinu. Þingið skorar á Alþingi og ríkisstjórn að veita til þessa verkefnis a.m.k. 1 milljarði króna árlega næstu fimm árin.“

Gera þarna stórátak. Það er búið að vinna mikla grunnvinnu á þessu svæði til að það geti verið öflugt ferðaþjónustusvæði en fjármagn vantar til að styrkja innviði þess, styrkja markaðsstarf og kynningarstarf. Og ég er viss um að verði það gert mun blómgast þarna mjög öflugt atvinnulíf í takt og sátt við umhverfi sitt.