131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:25]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum nú að taka fyrir seinni hálfleik, ef svo má segja, í umræðu um skýrslu hæstv. byggðamálaráðherra, byggðaskýrslu, en fyrri umferðin fór fram fyrir viku. Í fyrri ræðu minni sem ég hélt þá fór ég vítt og breitt yfir fyrri hluta skýrslunnar og kom þar víða við en endaði ræðuna á því að koma aðeins inn á sjávarútvegsmálin. Ég vil nú fá að lýsa því yfir að ég er frekar ósáttur við þessa skýrslu hvað það varðar hvernig stjórnvöld hafa staðið sig í þeim málum. Öllum er jú ljóst að sjávarútvegurinn skiptir mjög miklu máli fyrir hinar dreifðu byggðir landsins.

Í inngangi skýrslunnar er farið yfir byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti 3. maí 2002. Ég hnýt um nokkur atriði þar. Byggðaáætlun er rifjuð upp í innganginum og þar er farið yfir meginþætti hennar þar sem fram kemur að í þessari byggðaáætlun eru tólf stefnumarkandi áherslusvið. Fyrsta áherslusviðið er einmitt nýting sóknarfæra í atvinnulífi.

Það er skoðun mín að þetta sé einmitt kjarninn í því sem við eigum að gera þegar byggðamál eru annars vegar, þ.e. að nýta þau sóknarfæri sem við höfum fyrir hendi í atvinnulífinu hverju sinni. Við eigum að sjá til þess að einkaframtakið úti á landsbyggðinni fái að láta til sín taka, stjórnvöldum ber skylda til þess að skapa ramma til þess að svo megi verða.

Þarna tel ég því miður að stjórnvöld hafi brugðist allhrapallega að mörgu leyti, þó að vísu hafi margt gott verið gert líka og ég ætla svo sem ekkert að draga úr því. En það sem einkanlega hefur valdið óánægju hjá mér á undanförnum árum er það hvernig stjórnvöld hafa haldið á spilunum þegar sjávarútvegurinn er annars vegar. Við vitum að hann er gríðarlega mikilvægur mjög víða um land og margar af byggðunum meðfram ströndinni eiga allt sitt undir honum. Í mínum huga er alveg klárt að þessar byggðir eru að mörgu leyti hryggjarstykkið í mannlífi úti á landi því þar er að finna ýmsar þjónustustofnanir sem eru síðan gríðarlega mikilvægar fyrir t.d. landbúnaðarbyggðirnar þar í kring.

En til þess að þær byggðir sem eru yfirleitt alltaf við ströndina, þessar lykilbyggðir ef svo má segja, fái að rækja hlutverk sitt verða þær að hafa ákveðið þjónustustig og þær verða að hafa ákveðið atvinnustig líka. Það verður að vera fyrir hendi ákveðin starfsemi lykilþátta í þessum byggðum til að þær geti sinnt hlutverki sínu.

Á undanförnum árum tel ég að núverandi ríkisstjórn hafi hreinlega veist mjög harkalega að þessum byggðum með aðgerðum sínum. Það hefur komið í ljós að slíkar aðgerðir hafa verið algjörlega ónauðsynlegar. Ég held að ég hljóti enn og aftur að hvetja stjórnvöld og hæstv. byggðamálaráðherra til þess að íhuga það mjög vandlega hvort við höfum ekki verið að gera mjög alvarleg mistök t.d. með því að hefta atvinnufrelsi fólksins sem býr í þessum byggðum til að stunda útgerð. Þá er ég að tala um smábátana og jafnvel báta af millistærð, sem hafa verið mjög algengir og hafa nánast haldið atvinnulífi þessara staða uppi, hvort við ættum ekki einmitt að veita þeim meira frelsi til að nýta mikilvægustu náttúruauðlindir þessara byggða sem eru jú fiskurinn í sjónum allt í kringum landið.

Við sjáum að fiskigengd hefur víða aukist mjög mikið samfara hækkandi hitastigi í hafinu, til að mynda er nú mjög mikil fiskigengd fyrir utan allt Norðurland. Það er mikil fiskigengd við Vestfirði, jafnvel svo mikil fiskigengd í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi að fiskurinn sem þar er hefur étið upp alla rækjuna og nú er komið upp neyðarástand í mörgum byggðum á Vestfjörðum vegna þess að rækjan er horfin. Það er mjög mikið af fiski í fjörðunum en menn eru bundnir í allt of mikil höft, þeir ná ekki að nota sóknarfærin til að nýta auðlindirnar með þeim hætti sem þeir ættu að gera, einmitt vegna núverandi fiskveiðistjórnarkerfis.

Hið sama má segja um Norðurland. Ég var staddur á Siglufirði á dögunum og þar voru menn einmitt að barma sér yfir því að atvinnuástandið væri frekar dapurt. Það eru erfiðir tímar í úthafsrækjuveiðum, lélegur afli, hátt olíuverð og afurðaverð hefur lækkað, afkoman sem sagt slæm. Ég spurði hina ágætu bæjarstjórnarmenn á Siglufirði: Hvað með fiskinn, er ekki nógur fiskur í firðinum og hér fyrir utan? Jú, það er nógur fiskur, það vantar ekki, en við fáum bara ekki að veiða hann. Það vantar kvóta, að manni heyrðist.

Þetta tel ég, hæstv. forseti, vera mjög slæmt. Við stjórnmálamenn náum aldrei með ákvörðunum okkar að aðlaga lög og reglugerðir nógu fljótt að sveiflunum í lífríki hafsins. Ég tel að við ættum að láta litlu bátana sem eru heftir af veðri og sjólagi og öðru þess háttar hreinlega í friði og leyfa þeim að veiða, þó undir ákveðnum skilyrðum, þ.e. með ákveðnum veiðarfæratakmörkunum o.þ.h., þannig að við hefðum alla vega smá hemil á sókninni ef á þyrfti að halda, en þar fyrir utan að veita fólkinu sem býr á þessum stöðum frelsi til að lifa af þessari auðlind sinni.

Margt af því sem hefur verið gert er mjög slæmt. Af því að hæstv. byggðamálaráðherra er frá Norðausturlandi langar mig einmitt að fara yfir nokkur atriði sem beinlínis varða fólk í kjördæmi hennar, fólk sem ég hef hitt og talað við og leyfa henni að heyra hvað það hefur sagt mér.

Fyrir það fyrsta var ég staddur á Akureyri í haustbyrjun ásamt sjávarútvegsnefnd Alþingis á árlegri ferð hennar um landið. Þar hittum við smábátamenn frá Eyjafirði úr félaginu Kletti, Eyjafirði, svæðisfélag smábátaeigenda allt frá Ólafsfirði að Tjörnesi. Þeir tjáðu okkur að endalok hins svokallaða dagakerfis hjá trillunum sem núverandi ríkisstjórn ákvað illu heilli sl. vor, gegn mikilli andstöðu smábátamanna, hefði haft mjög alvarleg áhrif. Þeir létu okkur hafa skjal með ákveðnum áherslupunktum sem þeir afhentu öllum í sjávarútvegsnefnd Alþingis, undirritað af Pétri Sigurðssyni, formanni Kletts. Þar segir, með leyfi forseta:

„Lok dagakerfisins, fækkun starfa og nýliðun í útgerð er úr sögunni.

Hið breytta umhverfi sem blasir við mönnum á nýju fiskveiðiári með niðurfellingu dagakerfisins er langt frá því að vera bjart. Borðleggjandi er að störfum við fiskveiðar mun fækka til muna þar sem útgerð færabáta mun dragast verulega saman á okkar svæði. Til dæmis sjáum við fram á samdrátt sem nemur 20–30 bátum eða allt að 50 störf bara í veiðum. Einnig er það okkur mikið áhyggjuefni hversu erfitt er fyrir nýja aðila að komast inn í kerfið eins og það er orðið með kvóta á alla báta og tegundir. Stjórn Kletts telur enn, þrátt fyrir lagasetningu frá Alþingi á síðasta ári, að krafan um frjálsar handfæraveiðar eigi fyllilega rétt á sér.“

Þetta eru skilaboðin sem við, nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd, vorum beðnir um að koma til skila á hinu háa Alþingi og nú hefur það verkefni verið leyst af hendi.

Það sem mennirnir eru að segja þarna er mjög alvarlegt. Þeir koma frá stöðum eins og Ólafsfirði, Dalvík, Hrísey, Grenivík og Húsavík og eru að segja okkur að þeir hafi orðið fyrir miklu áfalli. Byggðirnar þeirra hafi orðið fyrir miklu áfalli, vegna þess að atvinnufrelsi þeirra hafi verið skert alvarlega vegna stjórnvaldsaðgerða sem voru ákveðnar í þessum sal. Stjórnvaldsaðgerðir sem ég tel að hafi verið gersamlega óþarfar því eins og ég sagði áðan hefur fiskigengd undan Norðurlandi verið að aukast töluvert mikið, t.d. er þar nú að finna mjög mikið af ýsu sem var varla að finna þar áður. Ýsan hefur komið þangað einfaldlega vegna þess að nýliðun í ýsustofninum hefur verið mjög góð. Umhverfisskilyrði hafa verið með þeim hætti að ýsustofninn hefur aukið útbreiðslu sína og er nú fyrir öllu Norðurlandi, en menn fá því miður ekki að veiða hann því þeir hafa ekki kvóta fyrir honum. Það er mjög slæmt.

Ég fór einnig til Húsavíkur. Þar voru menn að veiða og þar var líka mjög mikill fiskur rétt fyrir utan ströndina. Þar hittum við einnig smábátamenn og menn á minni bátum sem voru að veiða fisk. Þeir voru ekki að veiða úr eigin kvóta. Nei, þeir voru að veiða fyrir stórt fyrirtæki á staðnum sem er í eigu fyrirtækis sem er með aðalstöðvar sínar á Akureyri að mjög stórum hluta. Þessir menn gátu fengið að veiða upp á náð og miskunn á sínum eigin heimamiðum vænan þorsk. Þeir fengu fast verð fyrir þorskinn, 50 kr. á kílóið. Fyrirtækið lét þá hafa kvóta, dró síðan af þeim ákveðna upphæð í kvótaleigu og sjómennirnir sátu eftir með í mesta lagi einn þriðja af því verðmæti sem þeir hefðu annars fengið fyrir fiskinn ef þeir hefðu átt hann heilan og óskiptan.

Þetta er, hæstv. forseti, ekki mjög gæfulegt fyrir byggðir landsins þegar atvinnutæki byggðarinnar og fjárfestingin sem liggur í þeim og þeir tekjumöguleikar sem atvinnutækin geta útvegað mönnum eru nýtt til þess að veiða fisk í sjónum sem fjarstaddir, fjarlægir aðilar telja sig eiga. Sjómennirnir eru látnir borga hátt leiguliðaverð til þessara aðila fyrir að fá að róa til fiskjar á eigin heimamiðum. Þetta er afskaplega ósanngjarnt.

Ég er með annað dæmi um vestfirskan bát sem á tímabilinu 10. febrúar til 6. apríl í fyrra veiddi 182 tonn af þorski og ýsu. Heildarverðmætið var 25 millj. Af því fóru 17 millj. í að greiða kvótaleigu. Eftir sat útgerðin með rétt rúmar 7 millj. kr., þ.e. megnið af aflaverðmæti bátsins. Peningarnir fyrir þann afla runnu út úr byggðunum til einhverra annarra aðila sem sátu langt í burtu, kannski á suðvesturhorninu, kannski einhvers staðar fyrir norðan, hver veit. Þangað runnu sem sagt peningarnir, arðurinn af auðlindinni. Byggðirnar fengu ekki að njóta hans. Þetta er afskaplega slæmt. Þarna hafa margar byggðir því miður orðið að lúta mjög í lægra haldi vegna óréttláts kerfis.

Ég tel mjög brýnt að þessu verði breytt þannig að byggðirnar fái aftur atvinnuréttindi sín til baka og að fólkið í byggðunum geti lifað við auðlindir sínar og fengið að njóta arðsins af þeim heilum og óskiptum.

Ég vil aðeins að lokum, frú forseti, koma inn á annað atriði sem er talið í skýrslu iðnaðarráðherra sem stefnumarkandi áherslusvið, þ.e. 10. liðurinn, Bættar samgöngur, og 11. liðurinn, Greiður aðgangur að fjarskipta- og upplýsingatækni. Þetta er hvort tveggja gríðarlega mikilvægir þættir.

Það hefur margt mjög gott verið gert í samgöngumálum af núverandi ríkisstjórn, það skal alveg viðurkennast. Virkilega skemmtilegt að fara um landið og sjá þann stórhug sem hefur ríkt í samgöngumálum hér á landi á undanförnum árum. Við getum að sjálfsögðu rifist endalaust um forgangsröðina, en við höfum virkilega lyft grettistaki á undanförnum áratugum í samgöngumálum og ég ætla svo sannarlega að vona að þeirri stefnu verið haldið áfram. Þetta eru þau tvö lykilatriði sem geta eflt byggðirnar okkar til lengri tíma litið fái þær að njóta náttúruauðlinda sinna og að samgöngumálin og fjarskiptamálin séu í góðu lagi. Okkur á hinu háa Alþingi, stjórnmálamönnunum, ber skylda til að þetta sé í góðu lagi.

Ég vil að við förum að hugsa samgöngumálin svolítið öðruvísi en við höfum gert og reynum að flýta okkur frekar en hitt við að fara út í mikilvægar samgönguframkvæmdir. Ég tel að lausnin á því, sérstaklega sem snýr að suðvesturhorninu þar sem umferðin er mest, hljóti að verulegu leyti að felast í því að við leyfum einkaframtakinu að njóta sín meira en verið hefur í því að fjármagna og fara út í dýrar samgönguframkvæmdir. Reynslan af því hvernig farið var út í framkvæmdina á Hvalfjarðargöngunum og fjármögnun á henni er afskaplega góð. Ég tel að við ættum að skoða þá möguleika í fullri alvöru hvort ekki sé ástæða til að nota svipaðar lausnir m.a. til að lagfæra veginn yfir Hellisheiði og ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og halda okkur síðan við þá vegáætlun sem fyrir liggur í dag, nota þá peninga til þess að bæta enn frekar samgöngur á landsbyggðinni því þar er svo sannarlega mjög margt ógert þó mikið gott hafi verið gert á undanförnum árum.

Ég vil að lokum taka það fram að ef Landssíminn verður seldur er gersamlega nauðsynlegt að grunnnetið verði skilið frá til að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar, það verði áfram undir stjórn og í eigu hins opinbera. Ég hef lokið máli mínu.