131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:46]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hæstv. byggðamálaráðherra í því að hér vantar ráðherrana, ráðherra atvinnumála, svo hægt sé að ræða við þá um byggðamál vegna þess að byggðamál eru oft atvinnumál. Hér sárvantar hæstv. sjávarútvegsráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra. Það er í raun furðulegt að þeir skuli ekki sinna þessari umræðu betur en raun ber vitni.

Hæstv. byggðamálaráðherra talaði um árangur og ég vil fá að forvitnast um hvernig hún meti árangur í byggðamálum. Ég hef kvartað yfir því hér ítrekað að það vanti einhverjar mælistærðir, þ.e. íbúaþróun eða fækkun eða fjölgun starfa. Því væri fróðlegt að vita hvernig hún metur árangurinn vegna þess að við höfum ekki þær mælieiningar sem ég hefði talið vænlegar til þess að meta árangur.