131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Verðsamráð olíufélaganna.

[15:04]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Olíufélögin hafa orðið uppvís að glæp. Þau hafa staðið fyrir ólöglegu verðsamráði sem hefur kostað samfélagið háar upphæðir, fast að 40 milljörðum segir Samkeppnisstofnun. Hagnaður olíufélaganna sem má rekja beint til þessa ólögmæta athæfis er að mati Samkeppnisstofnunar 6 milljarðar.

Þegar einhver stelur er ætlast til þess í siðuðu samfélagi að sá sem stelur bæti þjófnaðinn að fullu. Olíufélögin hafa að vísu fengið sekt en sú sekt er miklu minni en hagnaðurinn sem má rekja til hins ólögmæta athæfis. Mér finnst þess vegna eðlilegt að olíufélögin endurgjaldi samfélaginu með einhverjum hætti til þess að bæta skaðann að fullu.

Nú hefur það líka gerst að olíufélögin hafa iðrast opinberlega, þau hafa beðist afsökunar og ef hugur fylgir máli hjá olíufélögunum, ef um er að ræða eitthvað annað en kattarþvott og yfirklór, hljóta þau líka að vera til viðræðu um það að bæta samfélaginu skaðann. Það tel ég að sé í rauninni eina leiðin til að ná sáttum við samfélagið.

Ég tel þess vegna eðlilegt í framhaldi af afsökunarbeiðni olíufélaganna að á það verði látið reyna hvort þau séu reiðubúin til að endurgreiða samfélaginu það sem Samkeppnisstofnun segir að þau hafi með rangindum af því tekið. Mér finnst eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra hafi forgöngu um slíkar viðræður. Ég vil því inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort hann telji ekki rétt í framhaldi af afsökunarbeiðni olíufélaganna að láta reyna á vilja þeirra til að bæta samfélaginu þann mikla skaða sem þau hafa unnið því og hvort hann muni ekki íhuga að beita sér fyrir slíkum viðræðum hið fyrsta.