131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Verðsamráð olíufélaganna.

[15:09]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég hef m.a. áhyggjur af málflutningi hv. þingmanns. Að sjálfsögðu er ég ekki sérstakur forsætisráðherra olíufélaganna og alveg fráleitt að þingmaðurinn leyfi sér að segja slíkt. En ég er að sjálfsögðu forsætisráðherra á grundvelli þeirra laga og reglna sem við höfum sett á Alþingi. Og ég vænti þess að hv. þingmaður vilji virða þau lög og reglur líka.

Af hverju settum við á stofn Samkeppnisstofnun? Var það ekki til að fjalla um þessi mál? Af hverju settum við á stofn úrskurðarnefnd samkeppnismála? Var það ekki til að fjalla um þessi mál? Af hverju settum við lög um það hvernig skyldi taka á málum sem þessum fyrir dómstólum? Svo kemur hv. þm. hér og vill að forsætisráðherra landsins fari að kalla fyrir sig olíufélögin. Mér finnst þetta alveg fráleitt og mér finnst full ástæða til að hafa áhyggjur af þingmanninum.