131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Verðsamráð olíufélaganna.

[15:11]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég held að það séu fleiri en olíufélögin sem þurfa að biðjast afsökunar. Mér fyndist að hv. þingmaður ætti að biðjast afsökunar á þeim ummælum sínum að ég sé hér sérstakur talsmaður olíufélaganna. Hvað á þetta að þýða?

Ég er talsmaður þeirra laga og þeirra reglna sem Alþingi hefur sett. Er ekki ljóst að þegar hefur verið úrskurðuð mikil sekt í þessu máli? Er ekki ljóst að það mun síðan ganga áfram? Er ekki líka ljóst að þessi mál eru til lögreglurannsóknar? Hvað er þingmaðurinn að fara? Mér þætti vænt um að hann útskýrði það nákvæmlega hvernig þetta á að fara fram sem hann er að lýsa. Við eigum að efla þær stofnanir sem hafa með þessi mál að gera og gleðjast yfir því að við eigum öflugar stofnanir sem koma upp um svona mál og hafa það aðhald á markaðnum sem raun ber vitni. Það er það sem skiptir máli.