131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Húsnæðislán bankanna.

[15:15]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er með þetta mál eins og það sem talað var um hér á undan að það er ekki þannig að ráðherrar hafi afskipti af öllu því sem fram fer í þjóðfélaginu.

Við höfum komið því þannig fyrir í sambandi við bankana að þeir starfa samkvæmt lögum þar um, en stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið hafa miklu hlutverki að gegna í sambandi við þá starfsemi sem fer fram í fjármálastofnunum. Eins og ég hef margoft tekið fram fer ég ekki með stjórn þeirrar stofnunar. Fjármálaeftirlitið er algjörlega sjálfstætt og ég hef ekki upplýsingar um það að hvaða málum þeir eru að vinna hverju sinni.

Af því að hv. þm. talar hér um lög um persónuvernd vil ég taka fram að þau heyra ekki undir ráðuneyti mitt, heldur undir dómsmálaráðuneytið. Í því tilfelli er því eins farið, Persónuvernd er sjálfstæð stofnun og starfar ekki samkvæmt tilmælum frá dómsmálaráðherra.

Með lagasetningu okkar höfum við komið okkur upp umhverfi og farvegi fyrir tilfelli eins og þetta þar sem við hljótum að treysta á að eftirlitið sé með þeim hætti sem þarf að vera og það sé tekið á þegar farið er út fyrir velsæmi í sambandi við mál eins og þetta. Ég heyrði þetta líka í fréttum eins og hv. þingmaður í gærkvöldi og hef ekkert frekari svör en hann við spurningunni.