131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Gatnamót Kringumýrarbrautar og Miklubrautar.

[15:18]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra vegna samgöngumála hér í Reykjavík og þá er ég nánar tiltekið að ræða mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Eins og menn þekkja er afskaplega mikil þörf fyrir þá samgöngubót. Í Reykjavík er sú sérstaka staða uppi að á meðan í flestum kjördæmum eru sveitarstjórnarmenn að sækja á ríkisvaldið um hinar ýmsu samgöngubætur má færa rök fyrir því, virðulegi forseti, að þetta snúist við hér í Reykjavík þar sem ríkisvaldið í rauninni er tilbúið með fjármuni en meiri hlutinn hér í borg hefur ekki áhuga á að nýta þá fjármuni. Eru þessi mislægu gatnamót ekki eina dæmið um slíkt.

Ég vildi því nota tækifærið, virðulegi forseti, og spyrja hæstv. samgönguráðherra nokkurra spurninga í tengslum við þetta:

Hver er staða þeirrar vinnu sem unnin hefur verið vegna undirbúnings mislægra gatnamóta á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar?

Hver er kostnaðurinn sem fallið hefur til hjá Vegagerðinni?

Hvert sér samgönguráðherra fyrir sér að verði framhald þessa máls?