131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

[15:39]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að þetta er tæplega óundirbúin fyrirspurn vegna þess að hún liggur skriflega fyrir í þinginu frá hv. þingmanni Norðvesturkjördæmis Jóhanni Ársælssyni. Því er kannski ekki ástæða til að eyða mjög miklum tíma í umræður um þetta. En það liggur fyrir að ýmsir hafa áhuga á því að lækka gjaldið vegna notkunar á Hvalfjarðargöngunum og sá sem hér stendur er meðal þeirra. Þingmenn úr öllum flokkum hafa vakið athygli á því að mjög æskilegt væri að lækka þetta gjald og af hálfu samgönguráðuneytisins hefur verið lögð áhersla á það við stjórn Spalar að leita allra leiða til þess að lækka þetta gjald.

Gert er ráð fyrir að endurskoðuð verði innheimta virðisaukaskatts og það er samkvæmt stjórnarsáttmála og ég hef vakið athygli á því í umræðum um lækkun á virðisaukaskatti að ég hef gert ráð fyrir því að til þess komi að skatturinn lækkaði á þessum þætti, þ.e. gjaldið er í lægra þrepi virðisaukaskattsins og ég tel eðlilegt að það verði skoðað í þeirri heildarendurskoðun. Breytingar á álagningu virðisaukaskatts gætu og ættu að leiða til lækkunar gjaldsins.

En aðalatriðið er að í viðræðum milli Spalar, samgönguráðuneytis og Vegagerðar er verið að leita leiða til að lækka gjaldið. Ég tel eðlilegt að taka þessa umræðu að öðru leyti þegar fyrirspurnin sem ég benti á verður hér til umræðu og á dagskrá síðar á þinginu.