131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[15:51]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram í þinginu. Ég var einn af flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar sem var samþykkt hér 2002 sem síðan varð til þess að farið var í þá vinnu sem nú hefur skilað sér inn í þingið sem frumvarp um græðara. Ég get ekki annað en verið ánægð með það. Við lestur frumvarpsins sé ég að víðtæk sátt hefur verið um hvernig frumvarpið er úr garði gert. Leitað hefur verið til fjölmargra félagasamtaka og stofnana um umsagnir. Síðan hefur verið höfð til fyrirmyndar lagasetningin á Norðurlöndunum en bæði í Noregi og Danmörku tóku gildi á þessu ári lög um óhefðbundnar lækningar.

Ég vil líka segja að mér finnst orðið græðari gott orð yfir þá sem stunda þessa heilsutengdu þjónustu eða óhefðbundnar lækningar og er sannfærð um að þessi lagasetning veitir bæði þeim sem nýta sér þjónustu græðaranna betri stöðu og sömuleiðis er þetta betra starfsumhverfi fyrir þá sem sinna óhefðbundnum lækningum.

Mig langar aðeins til að spyrja hæstv. ráðherra út í atriði sem er ekki alveg óskylt þessu, áhugamál mitt sérstakt, þ.e. hvort hæstv. ráðherra væri tilbúinn að taka einnig inn í svona lagasetningu aðra heilsutengda þjónustu, heilsurækt. Nú veit ég ekki hvort ráðherrann er að hlusta á mig þar sem ég sé að hann er að tala við fyrrverandi umhverfisráðherra en ég var sem sagt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann væri tilbúinn til að samþykkja svipaða lagasetningu yfir þá sem veita heilsutengda þjónustu sem felst í hreyfingu og líkamsrækt.

Nú hefur það gerst á Norðurlöndunum að læknar hafa vísað í æ auknari mæli á hreyfingu í stað þess að fara inn á hefðbundna læknisþjónustu. Við lestur þessa frumvarps finnst mér ekki óeðlilegt að sá hópur, þ.e. þeir sem sinna líkamsrækt og heilsutengdri þjónustu sem felst í því að fólk hreyfi sig og geri það á réttan hátt, fái einhverja svipaða stöðu. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn að standa að því.

Ég hyggst leggja fram þingsályktunartillögu í þá veru í vetur þar sem farið yrði í svipaða vinnu og hér hefur verið farið í hvað varðar hreyfingu. Ég hef mikinn áhuga á því að það verði gert. Ég vildi gjarnan heyra í hæstv. ráðherra um það. Auðvitað munum við síðan fara yfir þetta mál í heilbrigðis- og trygginganefnd og skoða það lið fyrir lið og hvort eitthvað mætti betur fara. Við fyrsta yfirlestur líst mér vel á málið og er tilbúin að styðja að það verði að lögum sem fyrst. Ég fagna því að þingsályktunin sem Lára Margrét Ragnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður og núverandi varaþingmaður, átti frumkvæði að skuli hafa skilað sér með þessum hætti inn í þingið.