131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:29]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi leggja örfá orð í belg um þetta ágæta mál sem er hér til umræðu. Þetta mál er enn ein sönnun þess að þingsályktunartillögur sem samþykktar eru hér á þinginu hafa oft á tíðum mjög góð áhrif og verða að veruleika.

Eins og hér hefur verið komið inn á var þetta mál sent til margra umsagnaraðila, þeir voru 60 talsins. Þar á meðal var frumvarpið sent til Bandalags íslenskra græðara, en það var stofnað árið 2000. Bandalagið hefur einmitt notað þetta orð „græðari“ sem er mjög fallegt og kjarnyrt íslenskt orð. Mér finnst fara vel á að nota það í þessu sambandi, um óhefðbundnar lækningar eða óhefðbundna meðferð, ef maður ætti að vera nákvæmari.

Aðildarfélög bandalagsins eru nokkur og mig langar að nefna þau: Acupunkturfélag Íslands, Cranio sacral félag Íslands, Cranio, félag höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara, Félag íslenskra heilsunuddara, Félag lithimnufræðinga, Organon, félag hómopata, Samband svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi og Svæðameðferðarfélag Íslands. Við heyrum af þessum lestri, virðulegi forseti, að félögin sinna þjónustu á mjög víðtæku sviði.

Segja má að í frumvarpinu felist neytendavernd, gerðar eru kröfur um aukið öryggi og reynt að tryggja gæði eins og kostur er í þessu frjálsa skráningarkerfi sem græðarar geta skráð í ef þeir hafa áhuga á því og uppfylla ákveðnar menntunarkröfur og faglegar kröfur. Það eru einnig gerðar kröfur til þeirra. Þeim er t.d. skylt að virða þagnarskyldu og einnig, eins og fram kemur í 4. gr., að taka tryggingar. Þar kemur fram að skráðum græðurum er skylt að hafa ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi vegna tjóns sem leitt gæti af mistökum eða gáleysi í störfum þeirra. Þeir geta líka lagt fram ábyrgð í ákveðnum tilvikum.

Málið veitir því vernd fyrir neytandann en það er einnig mjög gott fyrir græðarana sjálfa að fá einhvers konar viðurkenningu í þessu frumvarpi. Með því að ná inn á skráningarlistann geta þeir sagt að þeir séu skráðir græðarar og í því felst ákveðin viðurkenning. Ég tel mjög brýnt að þetta mál fái góða skoðun, m.a. vegna þessa stóra hóps sem nýtir sér þjónustu græðara í dag, sem fer mjög vaxandi.

Ég hef skilið það svo að góð sátt sé um þetta mál og m.a. hafi læknar talið að frumvarpið væri í ásættanlegu formi og hafi ekki mikið við það að athuga.

Hér hefur farið fram umræða um 2. gr. frumvarpsins, þ.e. skilgreininguna á því hvað er græðari. Þar kemur fram að með orðinu græðari sé átt við þá sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis en með slíkri þjónustu er átt við þjónustu sem byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum. Ég get ekki tekið undir að orðanna hljóðan, virðulegur forseti, geri lítið úr græðurum, þ.e. með því að vísa í hefð og reynslu. Stundum kemur á daginn að það sem hefur verið byggt á hefð og reynslu reynist síðar hægt að sanna vísindalega, að menn hafi verið á réttri leið.

Varðandi nálastungur má t.d. nefna að þar er aðferð sem menn hafa stundað mjög lengi, m.a. í Kína. Þar gerðu menn kort af mannslíkamanum þar sem fram komu, nálastungupunktarnir, kort sem þróað var í mörg hundruð ár út frá reynslunni. Þegar vísindin urðu fullkomnari og menn gátu mælt þessa punkta með rafbylgjum þá kom í ljós, að ég held, yfir 90% fylgni á þessum punktum og svo korti sem gert var út frá rafbylgjunum með vísindalegum nálgunum. Þar sannaði hefðin sig, að eitthvað var á bak við hana. Nálastungupunktarnir breyttust ekki mikið við rafbylgjurnar þegar kortið var kannað með þeim hætti.

Ég tel mjög gott að fólk geti nýtt sér þjónustu græðara. Það er æskilegt, jákvætt og gott fyrir hvern þann sem getur nýtt sér þá þjónustu. Hins vegar er önnur hlið á málinu sem maður þarf að spyrja sig að, þ.e.: Hvað kostar meðferðin? Mun hún kosta skattborgarana eitthvað? Eins og við vitum er mikill vöxtur í heilbrigðiskerfinu og útgjaldaaukning. Við veitum mjög góða þjónustu en það þarf að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu. Það er alveg ljóst að í fjárlögunum fyrir næsta ár fara 122,5 milljarðar kr. til heilbrigðismála. Það eru um 45% af útgjöldum ríkisins. Þar af eru 8,5 milljarðar kr. hækkun, þ.e. raunhækkun, og þá hefur ekki verið tekið tillit til verðlags eða verðbóta. Þetta er raunhækkun upp á 8,5%. Mér finnst það afar há tala. Ég var að reyna að ímynda mér og reyna að giska á hve mikil raunaukningin væri á því sem fer í heilbrigðiskerfið. Þetta eru 8,5%, sem er geysilega mikið.

Hér fór fram utandagskrárumræða um daginn um þenslu í samfélaginu, þróun verðbólgu og áhrif hennar á kjarasamninga. Þar kom upp sú krafa, sem eðlileg er, að sýnt væri aðhald í fjárlögum, sem er það hagstjórnartæki sem stjórnvöld geta beitt. Á sama tíma er krafa um aðhald í fjárlögum sem við vissulega beitum, m.a. með því að takmarka mjög fjárfestingar. Hins vegar er 8,5% raunaukning í heilbrigðismálum. Ég held að það ríki mikil sátt um þá raunaukningu. Ég hef a.m.k. ekki heyrt stjórnarandstöðuna gera miklar athugasemdir við það. Það er reyndar raunaukning líka í menntamálunum og félagsmálum.

Við verðum því að forgangsraða, virðulegur forseti, og þess vegna vil ég sérstaklega benda á að í umsögn fjárlagaskrifstofu segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Sjúkratryggingar koma ekki til með að greiða eða taka þátt í kostnaði einstaklinga sem leita eftir heilsutengdri þjónustu græðara. ... Ekki er því talið að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.“

Af þessu er ljóst að við erum ekki að feta okkur inn á þá braut að skattborgarar greiði fyrir þessa þjónustu í gegnum fjárlög. Það er algjörlega skýrt og mér finnst mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu, sérstaklega vegna orða hv. þm. Þuríðar Backman áðan. Það er a.m.k. ekki meiningin með þessu frumvarpi að ríkið taki þátt í kostnaðinum.

Ég vil benda líka á það að í 7. gr. segir, virðulegur forseti:

„Heilbrigðisstofnun er heimilt að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar.“

Í greinargerðinni segir um 7. gr., virðulegur forseti:

„Enn fremur er í 7. gr. tekið fram að heimilt sé að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara inni á heilbrigðisstofnun sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar.“

Almennt er það þannig að meðferðir á stofnunum eru ókeypis í okkar kerfi. Ég túlka þetta sem svo að þrátt fyrir að veitt sé heilsutengd þjónusta græðara á heilbrigðisstofnun þá verði hún greidd af viðkomandi sjúklingi en ekki skattborgurum. Annars væri ekki samræmi milli frumvarpsgreinanna og umsagnar fjármálaráðuneytisins.

Ég vildi gera þetta að sérstöku umtalsefni vegna hins mikla vaxtar í heilbrigðiskerfinu. Þessi þjónusta sem græðarar veita er mjög mikilvæg og æskileg og sjálfsagt mun koma upp spurning um hvort það eigi að greiða hana, hvernig, með hvaða skilyrðum o.s.frv. En það er a.m.k. alveg ljóst að í þessu frumvarpi er ekki opnað á það.

Ég sé líka, virðulegur forseti, að við fetum hér sömu leið og menn hafa gert í Noregi og Danmörku, að setja upp frjálst skráningarkerfi. Það þýðir að menn komast þar inn ef þeir uppfylla ákveðnar menntunar- og faglegar kröfur.

Ég tel vel staðið að verki. Málið er búið að fá víðtæka skoðun og ég tel að það muni flýta mjög fyrir skoðun málsins í heilbrigðisnefnd þingsins.