131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:44]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri kannski ágætt að hæstv. heilbrigðisráðherra greiddi úr þessum vanda hjá okkur. Ég skildi það þannig að umsögn fjármálaskrifstofunnar væri í þá veru að það væri ekki gert ráð fyrir að sjúkratryggingar Tryggingastofnunar greiddu græðurum, þeir færu sem sagt ekki inn á samning hjá Tryggingastofnun og fengju ekki greitt þar.

Sé hins vegar tekin ákvörðun um að sjúklingur, sem er inni á heilbrigðisstofnun, þurfi á tiltekinni meðferð að halda sem er í höndum græðara, þá er það hluti af þeirri meðferð og órjúfanlegt frá annarri meðferð innan stofnunarinnar en það væri ágætt að heyra frá hæstv. ráðherra um það efni.

Í þessari umræðu kom upp í huga mér að Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands er að vissu leyti greidd af opinberu fé. Fólk greiðir hins vegar ákveðið daggjald sem stendur ekki undir nema hluta af þeim kostnaði sem meðferðin kostar. Það er alveg ljóst að þar fer fram meðferð, leirböð og annað, sem mundi falla undir óhefðbundna meðferð. Í raun hafa heilbrigðisyfirvöld að vissu leyti viðurkennt, á þessu endurhæfingarsviði, meðferð sem er greidd af opinberu fé að einhverju leyti. Það mætti skoða það aðeins.