131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:46]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að rétt sé að hæstv. heilbrigðisráðherra varpi ljósi á þessa spurningu, hvað þetta nákvæmlega þýðir. Ef það er óljóst getum við líka kallað eftir því í nefndinni. Ég held að mjög brýnt sé að kveða upp úr með þetta. Eins og við vitum eru nokkrar stéttir sem vilja gjarnan fá endurgreiðslur frá Tryggingastofnun, fá endurgreiðslur af skattfé borgaranna. Mér finnst þetta grundvallarspurning. Það er prinsippspurning fyrir hvað á að greiða og hvað ekki.

Það er svo mikill vöxtur í heilbrigðisútgjöldunum. Við erum að auka útgjöld um 8,5% núna milli ára, samt í aðhaldsumhverfi. Við þurfum virkilega að vanda okkur og forgangsraða varðandi það hvað almennur skattpeningur á að fara í í þessu sambandi. Þetta segi ég ekki til að gefa í skyn að þessi þjónusta sé ekki mikilvæg. Ég held að hún sé mjög mikilvæg og geti hjálpað afar mörgum.