131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[17:02]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég skildi hæstv. heilbrigðisráðherra á stofnunin sjálf að greiða útgjöld sem felast í því ef sjúklingar vilja nýta sér þjónustu græðara á heilbrigðisstofnun sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar. Af því tilefni langaði mig aðeins að velta dálitlu upp: Getur staðan orðið sú — ég er nú ekki að segja að hún verði þannig — en gæti hún orðið þannig að til yrðu kallaðir græðarar, t.d. heilsunuddarar eða meðferðaraðilar sem sinna nálastungum, í auknum mæli á heilbrigðisstofnanir til að lina þjáningar fólks í talsvert stórum stíl? Þá þyrfti að forgangsraða upp á nýtt á þessum stofnunum af því að væntanlega þýddi það talsverð útgjöld að kalla inn svona meðferðaraðila á stofnanirnar.