131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[17:04]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við þurfum að fara mjög ítarlega yfir þetta í nefndinni. Ég þekki nú ekki nákvæmlega hvernig þetta er núna, þ.e. hvort verið sé að kalla til utanaðkomandi græðara inn á heilsustofnanir eða hvort hér verði um alveg nýja tegund þjónustu að ræða sem við sinnum ekki í dag. Ég velti líka upp samkeppnissjónarmiðum. Ef það verður kallað á græðara inn á stofnanir í auknum mæli og greitt fyrir hvert skipti, af stofnuninni væntanlega, eitthvert gjald, koma þá ekki upp erfið samkeppnissjónarmið gagnvart öðrum sem eru ekki inniliggjandi á stofnunum og þurfa að borga úr eigin vasa fyrir þjónustu græðara?

Við getum kannski ekki komist algerlega að þessu í þessari umræðu. En ég tel mjög brýnt að heilbrigðisnefnd skoði þetta algjörlega ofan í kjölinn þannig að það sé algjörlega skilgreint hvaða braut við erum að feta í þessu efni.