131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

208. mál
[17:07]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta fjallar einkum um gagngera breytingu á grundvelli kirkjugarðsgjalds sem stendur undir rekstri kirkjugarða í landinu. Nú er fjárhæð kirkjugarðsgjalds ákveðin sem fast árlegt gjald sem miðast við fjölda sóknarbarna 16 ára og eldri í viðkomandi sókn. Kirkjugarðsgjaldið losar nú 3 þús. kr. á ári fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Það tekur hækkunum milli ára í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga næstliðinna tveggja ára á undan gjaldárinu. Kirkjugarðsgjaldið hefur því ekki í raun tekið mið af raunverulegum kostnaði við rekstur kirkjugarðanna.

Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að kirkjugarðsgjald taki mið af reiknilíkani sem mæli raunverulegan kostnað við greftranir og rekstur kirkjugarða. Hluta gjaldsins er ætlað að renna í Kirkjugarðasjóð sem nýtir féð til að jafna aðstöðu kirkjugarða með lánum eða styrkjum. Lagt er til að þessi hlutur verði aukinn, m.a. til þess að sjóðurinn geti aðstoðað kirkjugarða sem fá minna fé vegna kerfisbreytingarinnar og til að auðvelda þeim að laga sig að breytingunum.

Kirkjugarðasamband Íslands hefur síðan árið 2000 beitt sér fyrir gerð reiknilíkans um útreikning kirkjugarðagjalds og skiptingu þess. Sambandið gaf m.a. út skýrslu vorið 2003 þar sem ítarlega er fjallað um fjármál kirkjugarða. Síðan hefur starfshópur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og Kirkjugarðasambandsins unnið áfram að útfærslu á gjaldalíkaninu. Málið var lagt fyrir Kirkjuþing haustið 2003 sem heimilaði fyrir sitt leyti flutning frumvarpsins og breytingar þar að lútandi. Breyturnar sem notaðar verða fyrir útreikning kirkjugarðsgjaldsins verða aðeins tvær, þ.e. fjöldi látinna á næstliðnu ári annars vegar og hins vegar stærð grafarsvæða í umhirðu. Við útdeilingu gjaldsins mun Kirkjugarðasjóður hins vegar nota fleiri breytur.

Ráðgert er samkomulag milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Kirkjugarðasambands Íslands þar sem nánar verði kveðið á um greiðslur samkvæmt líkaninu. Tekið er mið af því að sömu grundvallarverkefni þarf að vinna í sérhverjum kirkjugarði án tillits til fjölda íbúa í sókn. Með þessu fyrirkomulagi verður framlag til kirkjugarðanna ekki lengur lögboðið. Hins vegar er ekki unnt að útiloka að stjórnvöld telji óhjákvæmilegt vegna aðhalds í ríkisfjármálum að líta til þessara útgjalda eins og annarra.

Fjárveiting til kirkjugarða í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2005 er byggð á nýja reiknilíkaninu og nemur um 715 millj. kr. sem er svipuð fjárhæð og hefði verið eftir gamla kerfinu.

Virðulegi forseti. Nokkrar minni háttar breytingar á kirkjugarðalögunum er einnig að finna í þessu frumvarpi.

Fyrst má nefna að kirkjugarðsstjórnir geta sameinast, í öðru lagi að forstjóri Fornleifaverndar ríkisins eða fulltrúi hans eigi sæti í kirkjugarðaráði í stað þjóðminjavarðar, í þriðja lagi að kirkjugarðsstjórnir sendi legstaðaskrá, þ.e. skrár um hvar látnir menn eru jarðsettir, ekki aðeins til sóknarprests heldur einnig til legstaðaskrár kirkjugarðaráðs á netinu, í fjórða lagi að með samþykki biskups geti kirkjugarðaráð ákveðið að hætt skuli að grafa í kirkjugarði þar sem sókn er orðin fámenn eða íbúarnir eru allir farnir og sjaldan eða aldrei hefur verið jarðsett í garðinum á undanförnum árum. Í fimmta lagi er sú breyting lögð til sem vikið var að hér að framan að til Kirkjugarðasjóðs skuli renna hærra hlutfall en áður af kirkjugarðsgjaldi, þ.e. allt að 12% í stað 8%, svo að kirkjugarðaráð hafi svigrúm til að jafna aðstöðu kirkjugarða og auðvelda aðlögun í breytt kerfi. Þá er einnig lagt til að Kirkjugarðasjóði verði heimilað að veita smæstu kirkjugörðum fjárframlag í stað hlutdeildar í heildarframlagi, en þar er um að ræða kirkjugarða þar sem að jafnaði er jarðsett einu sinni eða tvisvar á ári eða sjaldnar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.