131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

208. mál
[17:14]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef í raun ekkert frekar um þetta efni að segja en fram hefur komið. Frumvarpið lýtur að reiknilíkaninu og fyrirkomulagsatriðum sem ég nefndi til að einfalda starfsemina, sérstaklega í hinum fámennari byggðum, og tekur mið af því að menn vilji líta til þess.

Ég get svo sem ekki heldur sett mig í spor hv. síðasta ræðumanns sem er heiðinn, ef ég veit rétt, og er ekki í þjóðkirkjunni og vill veg hennar ekki mikinn. Það er sjónarmið sem er sjálfsagt að ræða hvort menn eigi að fela kirkjulegum yfirvöldum að sinna þessu eða láta þau fjalla um þessi mál.

Ég er ekki að gera tillögu um það hér. Ég er að gera tillögur um fyrirkomulagsatriði og nýskipan varðandi útreikninga á gjöldum til kirkjugarðanna. Hitt er annað mál sem hv. þm. getur að sjálfsögðu rætt og komið með tillögur um, að taka þetta úr höndum kirkjulegra yfirvalda og flytja þetta til sveitarfélaganna, en frumvarpið snýst ekki um það. Ég hef ekki þá skoðun og mun ekki flytja frumvarp um það efni.