131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

208. mál
[17:16]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vék ekki með neinum hætti að Ásatrúarfélaginu eða öðrum trúfélögum svo það sé ástæða fyrir mig til að svara andsvarinu á annan veg en þann að að sjálfsögðu er trúfrelsi í landinu þó ákvæði stjórnarskrárinnar séu þannig að hér er einnig starfandi þjóðkirkja. Frumvarpið sem ég flyt raskar ekkert þeirri skipan eða hvernig menn eru jarðsettir hér á landi. Þetta er spurning um reiknilíkan. Spurning um yfirstjórn kirkjugarða í fámennum byggðarlögum.

Ég hef átt gott samstarf við Ásatrúarfélagið og vil taka það sérstaklega fram, af því að við erum hér nefndarmenn í Þingvallanefnd t.d., að við höfum átt gott samstarf við það félag og vitum að Þingvellir sem friðlýstur helgistaður allra Íslendinga er að sjálfsögðu líka griðastaður fyrir menn í Ásatrúarfélaginu.