131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

53. mál
[17:38]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég kem fyrst og fremst hér upp til að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta ágæta mál. Það gladdi mig að heyra hvað hæstv. heilbrigðismálaráðherra tekur jákvætt í það. Í tillögunni er gengið út frá því að skipuð verði nefnd af hálfu heilbrigðisráðherra sem geri úttekt á kostum og göllum málsins og það held ég að sé mjög þarft. Um leið og skipuð er nefnd með aðkomu þeirra aðila sem nefndir eru í tillögunni, og þar er komið víða við því þetta er stór nefnd, þar verða fagmenn og fræðimenn af mörgum og mismunandi sviðum, þá erum við í rauninni líka að ýta undir umræðu úti í samfélaginu. Í athugasemdum, eða greinargerð með þessari þingsályktunartillögu, er m.a. vísað til könnunar sem var gerð hér á landi um viðhorf manna til þessara álitaefna, þar sem markhópurinn var læknar, lögfræðingar og prestar.

Það kemur m.a. fram að afstaðan og viðhorfin eru mjög mismunandi. Þarna er þó einungis um þrjár háskólamenntaðar stéttir að ræða. Maður veltir fyrir sér hvernig dreifingin hefði orðið ef fleiri hefðu verið teknir með í könnunina.

Eins og hv. 1. flutningsmaður, Jóhanna Sigurðardóttir, vakti athygli á, voru það ekki nema 8% sem settu sig alfarið gegn því að þessi leið væri farin.

Niðurstaðan sem kemur fram, og er áréttuð í fræðilegri grein sem birtist um þetta mál í Læknablaðinu í fyrra, er helst sú að mikil þörf sé á þjóðfélagslegri umræðu um málið. Ég held að það eigi við um þetta eins og ýmis önnur mál sem hafa verið til umfjöllunar í heilbrigðis- og trygginganefnd, það sem okkur vantar mest varðandi nýja tækni, nýja möguleika í læknisfræðinni, og okkur vantar einnig í þessa umræðu, er siðfræðiumræða. Í gegnum áratugina höfum við verið svolítið fátæk af umræðu þar sem fræðigreinar eru leiddar saman. Það vantar siðfræðiumræðu tengda trúarlegum sjónarmiðum með aðkomu læknisfræðinnar, en læknisfræðin fæst jú fyrst og fremst við þessi mál.

Að skipuð verði nefnd í máli eins og þessu, sem hefur það hlutverk að ræða kosti og galla málsins, nefnd sem síðan skili tilteknum niðurstöðum til þessa álitaefnis, finnst mér hafa þann kost helstan að slíkt kallar á umræðu úti í samfélaginu. Eina sem ég velti fyrir mér er hvort þessi starfstími, 1. janúar 2006, er kannski of skammur. Ég tók ekki eftir hvort það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan, en ég veit að einhvern tíma á næstu mánuðum er áætluð ráðstefna um þetta álitaefni. Ég held að öll svona umræða þurfi að gerjast mikið í samfélaginu, þannig að þetta fari ekki út í að líkjast kosningabaráttunni í Bandaríkjunum, þar sem menn standa með öðrum hvorum frambjóðandanum, Kerry eða Bush.

Mér finnst eðlilegt að mál sem hefur orðið að hita- og kosningamáli í Bandaríkjunum og skipt þjóðinni í tvær fylkingar þar, fái þá umræðu sem svona nefndarskipan býður upp á.

Ég geri ráð fyrir að að lokinni umræðunni hér verði þessu máli vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar. Ég hlakka til þess að nefndin fjalli um málið þar og fái ef til vill til sín einhverja gesti sem viðra mismunandi sjónarmið. En ég er í aðalatriðum jákvæð út í þetta mál, vegna þess að það býður upp á umræðu sem ég held að sé mjög nauðsynleg eins og á ýmsum öðrum sviðum læknisfræðinnar þar sem siðfræðin, trúfræðin og annað þarf að koma inn í, ég nefni t.d. álitaefni varðandi snemmómskoðun og annað sem við höfum aðeins verið að fjalla um.

Það hefur komið í ljós að Svíar og Bretar séu mjög virkir í þessu, Norðmenn hafi bannað þetta og Danir séu að hugsa sig um. Það er alveg ljóst að hafi aðrar þjóðir heimilað þessa nýtingu á fósturvísum til rannsókna og lækninga, ef þessi vinna fer nú þegar fram í öðrum löndum og í alþjóðlegu vísindasamfélagi þá stöðvar slíkt ekki við nein landamæri. Það segir sig alveg sjálft þegar stór hluti þeirrar þjóðar sem við höfum mest samstarf við er kominn af stað í þessa vinnu, þá hljótum við a.m.k. að þurfa að taka afstöðu til þess og fara í gegnum umræðuna sem því fylgir.

Ég hef svolítinn fyrirvara við starfstímann af því ég held að umræðan þurfi tíma til að þróast. Svo velti ég því líka fyrir mér af því könnunin náði til lækna, lögfræðinga og presta, af hverju við höfum ekki lögfræðing í nefndinni.

Ég vonast til að þetta mál verði afgreitt til heilbrigðis- og trygginganefndar eftir þessar umræður og fái þar jákvæða afgreiðslu þannig að umræðan geti þá hafist, sem ég tel að hljóti að vera okkur til góðs.