131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

53. mál
[17:44]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um nýtingu stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga sem Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flutningsmaður að. Ég er einn af meðflutningsmönnum. Ég fagna því að menn hafa tekið vel í tillöguna í þessari umræðu. Málið mun fara til heilbrigðis- og trygginganefndar þar sem ég á sæti og ég hlakka til að fá að fjalla um þetta mál þar. Við höfum verið að fást þar við ýmsar siðfræðilegar spurningar. Auðvitað koma slík mál oft til kasta nefndarinnar þar sem við erum með heilbrigðiskerfið undir og vísindi tengd því.

Hér er verið að leggja til mjög mikilvægt og tímabært starf eins og bent hefur verið á. Notkun stofnfrumna í vísindum er nýjung. Ég verð að segja að mér finnst tillagan að nefndinni vera góð. Þarna er verið að kalla saman, eins og lagt er til, mjög breiðan hóp til að ræða málið og gera úttekt á kostum og göllum þess út frá læknisfræðilegu, siðfræðilegu og trúarlegu sjónarmiði að heimila nýtingu stofnfrumna úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum.

Ég get tekið undir það með hv. formanni heilbrigðis- og trygginganefndar að e.t.v. er nefndinni gefinn of skammur tími til að vinna þetta starf en það er þá minnsta mál fyrir okkur í nefndinni að breyta tímamörkum nefndarinnar. Við getum lagt til að nefndin ljúki störfum síðar ef okkur virðist tíminn vera of skammur sem ég gæti vel trúað að væri rétt.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór ágætlega yfir það í ræðu sinni þegar hún mælti fyrir málinu í hverju þetta felst og hver staða þessarar vísindagreinar er. Ég er enginn vísindamaður en mér finnst þetta vera ákaflega merkilegt starf allt saman og nýtt. Hér kemur einmitt í ljós að það er ekki heimilt að vinna með stofnfrumur úr fósturvísum manna hér á landi. Lögin um glasafrjóvgunarmeðferðina voru sett tveim árum áður en rannsóknir á stofnfrumum úr fósturvísum manna hófust, eða 1998, þannig að þetta eru allt miklar nýjungar og því mjög tímabært og mikilvægt að við vinnum þessa vinnu, vinnum heimavinnu okkar í þessum málum.

Miklar vonir eru bundnar við notkun stofnfrumna í lækningum. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti einmitt á það hér að sums staðar í nágrannalöndum okkar er gengið lengra en við leggjum til hér. Menn hafa náð miklum árangri í að nota þessar frumur. Fólk hefur t.d. fengið sjónina aftur eins og hv. þingmaður benti á dæmi um.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég fagna því að ráðherra tók vel í að þessi vinna færi af stað og líka formaður heilbrigðis- og trygginganefndar. Ég get ekki séð annað, a.m.k. ef ég álykta út frá þessari umræðu, en að þetta mál muni verða afgreitt úr nefndinni í vetur ef umræðan í nefndinni verður jafnjákvæð og hér í þingsalnum. Ég vil þakka fyrir hana og fagna því að menn taka vel í málið. Við munum áreiðanlega taka höndum saman um að afgreiða það að farið verði út í þessa merkilegu vinnu.