131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

53. mál
[17:49]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma hér upp og hafa örfá orð um þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu, um nýtingu stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Þar kemur fram að gerð er tillaga um að stíga í rauninni örstutt skref í þá átt að skoða hvað felst í nýtingu stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga. Eiginlega er fyrsta skrefið í skoðunartímabilinu að skipa nefnd sem á að gera úttekt á kostum þess og göllum út frá læknisfræðilegu, siðfræðilegu og trúarlegu sjónarmiði að heimila nýtingu stofnfrumna úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum. Eins og ég segi er þetta er í rauninni fyrsta skrefið, þ.e. að skoða kosti og galla í þessu máli. Síðan getum við þá byggt frekari ákvarðanir á því.

Ég tek í sjálfu sér ekki neina afstöðu til þess hverjir eiga að skipa í nefndina en kannski vantar einhvern inn í upptalninguna. Ég geri í sjálfu sér ekki neinar athugasemdir við það frekar.

Ég athugaði í dag þegar ég var að skoða þessa þingsályktunartillögu hvort málið hefði komið til umfjöllunar á síðustu þingum. Mér taldist til að a.m.k. á síðustu fimm þingum hefði þetta efnisorð, stofnfruma, ekki verið tekið til umfjöllunar. Sama má segja þegar skoðað er hvað hefur verið fjallað um slík mál t.d. í Morgunblaðinu sl. tvö ár. Það er ekki mjög mikið þótt birst hafi einstaka frétt um hvað hefur verið að gerast, fréttir um umræðu erlendis og síðan náttúrlega frétt sem sneri að stofnfrumumeðferð sjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi þar sem eigin stofnfrumur voru notaðar í lækningaskyni. Ég man eftir þeirri umræðu, þetta þótti mjög merkilegur viðburður og miklar framfarir í læknavísindum hér á landi.

Þótt þessi umræða hafi ekki farið mjög hátt hérlendis hefur hún gert það erlendis. Eins og kom fram í framsöguræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur var þetta mál eitt af stóru málunum í forsetakosningunum í Bandaríkjunum núna fyrir stuttu. Miklar og mjög skiptar skoðanir voru um málið. Þetta tekur til mjög margra þátta, siðfræði, vísinda, trúar og stjórnmála. Ég tel einmitt mjög mikilvægt að við hefjum þessa umræðu hér á landi.

Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni er bannað samkvæmt lögum að vinna með stofnfrumur úr fósturvísum manna hér á landi. Það er tekið fram í lögum. Ég bendi á að þegar við settum lög um tæknifrjóvganir 1996 fórum við þá leið, að mjög vel athuguðu máli, að heimila tæknifrjóvgun með gjafaeggi. Þar gengum við framar en aðrar þjóðir, a.m.k. hafa Danir ekki leyft slíkar tæknifrjóvganir. Þessi ákvörðun var tekin að vel íhuguðu máli með mörg siðfræðileg sjónarmið undir. Þetta hefur leitt til þess að núna, eftir að tæknifrjóvgunardeildin fór út fyrir veggi Landspítalans og verður reyndar opnuð formlega á föstudaginn, hefur það komið fram að Danir hafa sérstaklega leitað eftir upplýsingum hér á landi til að fá að komast í slíka meðferð sem er bönnuð í Danmörku.

Ég er ekki að segja að við ættum að leggja til grundvallarlagabreytingar varðandi stofnfrumugerð til að nýta okkur þær í viðskiptalegum tilgangi en það sem ég er að segja er að þegar niðurstaða er fengin eftir ítrekaða umræðu, önnur niðurstaða en aðrar þjóðir hafa fengið, gefur það líka ákveðna möguleika, ekki bara á viðskiptalegum grundvelli, heldur líka sem snýr að vonum fólks til annars og betra lífs en það hefði annars átt kost á. Ég er m.a. að tala um tilvik varðandi gjafaegg. Varðandi stofnfrumur eins og hefur komið fram í máli ýmissa hv. þm. eru ýmsar vonir bundnar við rannsóknir á stofnfrumum og hvaða möguleika það mun hugsanlega gefa til lækninga á sjúkdómum sem ekki hafa verið taldar mögulegar fyrr. Í því tilviki sem við erum hér að skoða erum við náttúrlega að tala um fósturvísa manna og við þurfum að gæta þar siðfræðilegra sjónarmiða. Á hinn bóginn segir það sig sjálft að þegar verið er að nota stofnfrumumeðferð eða stofnfrumur úr eigin líkama til notkunar í sama líkama horfum við ekki á þetta með sama hætti.

Við ræddum fyrr í dag töluvert um óhefðbundnar lækningar, mál sem kom einmitt frá þingmanni. Í huga mínum er það dálítið sambærilegt mál sem hefur ekki verið til umræðu hér á landi í sama mæli og erlendis. Ég tel að þetta sé mjög gagnleg umræða og ég tel sjálfsagt að styðja að sú vinna fari fram sem þingsályktunartillagan leggur til.