131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

53. mál
[18:03]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir þakklæti hv. þingmanna til hv. flutningsmanns þingsályktunartillögunnar. Þetta er mjög þörf umræða. Við erum með marga duglega og ákafa vísindamenn sem vilja að sjálfsögðu rannsaka og finna lausnir á ýmsum vandamálum á heilbrigðissviðinu og víðar. Þeir lenda oft í þeirri stöðu að nálgast siðfræðimörk sem við glímum við. Annars vegar erum við með sjúkt fólk, alzheimersjúklinga, krabbameinssjúklinga o.s.frv. og hins vegar erum við með skilgreiningu á því hvað er maður og helgi hans.

Ég held að umræðan sem tillagan kallar fram sé mjög þörf, sérstaklega skilgreiningin á því hvað er maður og hver helgi hans er. Það hefur nefnilega verið breytingum undirorpið í ýmsum þjóðfélögum hvað er skilgreint sem maður. Við erum t.d. með þá skilgreiningu í sambandi við fóstureyðingar að eyða megi fóstrum ef ekki er gengið lengur með en 12 vikur og í undantekningartilvikum 20 vikur. Í sjálfu sér gerist ekkert sérstakt við 12 vikur hjá fóstrinu sem réttlætir það að segja að í gær var það ekki maður og á morgun er það orðið maður, eða fyrir fimm mínútum var það ekki maður og núna er það orðið maður. Skilgreiningin er því afskaplega loðin og fljótandi og kannski ekki nægilega góð.

Við ræðum ýmiss konar siðferðileg vandamál, t.d. snemmómskoðanir þar sem verið er að vinsa úr ákveðna einstaklinga sem gætu verið veikir en eru það ekki endilega. Þar með er verið að vinsa úr og eyða lífvænlegum fóstrum og hugsanlega yrðu einhver alheilbrigð.

Það sem við ræðum hér er líka siðferðilegt vandamál varðandi það hvort við eigum að heimila það að nota fósturvísa sem eins konar varahluti fyrir fólk, búa til hjarta, búa til leg jafnvel. Ég vil gjarnan varpa upp þeirri hugmynd hvað mundi gerast ef vísindamenn byggju til leg utan líkama og notuðu það síðan til þess að framleiða einstaklinga með glasafrjóvgun. Það er sem sagt mikið af siðferðilegum vandamálum.

Annað vandamál sem ég hef oft hugleitt í sambandi við glasafrjóvganir er að það eru nokkrar frumur sem koma til greina, nokkrir einstaklingar, og viðkomandi læknir eða sérfræðingur velur úr einn einstakling til að lifa. Hann er næstum því guð almáttugur, hann skapar einstakling, hvorki meira né minna. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi velt vöngum yfir því hvað sé í rauninni verið að gera. Það eru fjórar frumur, tvær geta orðið stúlkur og tvær geta orðið drengir, og það er ljóshært og dökkhært og ég veit ekki hvað, og svo er ein valin úr og plantað í legið og verður fullburða einstaklingur. Við erum því með mjög mörg siðferðileg vandamál sem ég vona að þingsályktunartillagan kalli fram virka umræðu um.

Varðandi það hvort tímaramminn sé of stuttur eða of langur held ég að hann sé of stuttur. Það er það mikið að gerast í vísindunum, það er það mikil þróun í gangi að við ættum ekki að hafa tímarammann lengri en þetta. Hins vegar á okkur ekki að bera nein skylda til þess að fara að tillögum nefndarinnar heldur er henni fyrst og fremst ætlað það hlutverk í mínum huga að skapa umræðu um þetta mikla vandamál sem við stöndum frammi fyrir, sem sagt: Hvenær er frumuklasi orðinn maður og hvenær er hann ekki maður og hvenær verður hann helgur?