131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

53. mál
[18:17]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri engar athugasemdir við þetta andsvar hv. þingmanns vegna þess að eins og hv. þingmaður les í tillögugreinina sjálfa gengur hún eingöngu út á það að gerð verði úttekt á kostum þess og göllum út frá læknisfræðilegu, siðferðilegu og trúarlegu sjónarmiði að heimila nýtingu á stofnfrumum úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum. Þetta eru efnisatriði tillögunnar og ég tek alveg undir þau.

Ég var náttúrlega komin aðeins lengra vegna þess að ég tel málið það brýnt. Ef það verður niðurstaðan að heimila að fara út í lagabreytingar eftir að nefndin er búin að komast að niðurstöðu og hugsanlega leggja til lagabreytingar verður að fylgja málinu eftir. Við verðum þá að bæta aðbúnað og aðstöðu vísindamanna okkar til þess að þeir geti farið út í þær mikilvægu rannsóknir sem við værum þá að heimila með því að breyta lagalegu umhverfi til þess að þeir geti farið út í þessar rannsóknir og lækningar á sjúkdómum eins og við stefnum hér að.