131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

53. mál
[18:18]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Vegna þessarar umræðu í andsvari og svari við andsvari verð ég að taka fram að ég styð það að rætt verði um málið og að umræðan verði sett í gang, en það er alls ekki þar með sagt að ég styðji endilega einhverja fyrir fram gefna niðurstöðu.

Það getur vel verið að það komi út úr umræðunni að heimilt sé að nota stofnfrumur og það getur vel verið að sú niðurstaða sannfæri mig um það en það er ekkert víst. Það getur líka komið út úr þessu að það megi alls ekki nota stofnfrumur til rannsókna þannig að við skulum ekki gefa okkur neitt um það fyrir fram. Stuðningur minn við þingsályktunartillöguna byggist eingöngu á því að hún býr til umræðu um málið og ég tel hana vera mjög brýna.