131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Aðgangur allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu.

31. mál
[18:40]

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Bjarnasyni fyrir öflugan málflutning með þessari tillögu.

Ég vil bara árétta hversu mikilvægt er að við nýtum styrk Landssímans til þess að byggja upp þessa þjónustu. Og ég vil vara við þeim hugmyndum og áróðri sem talsmenn hafa uppi á sölu Landssímans um að nota eigi andvirðið til að byggja upp. Það hefur aldrei þótt gott að selja björninn úti í skógi óveiddan og sama er með þetta.

Auk þess, hverjum á þá að fela að byggja upp kerfið ef búið er að selja fyrirtækið en ríkið þykist samt ætla að standa að þessari þjónustu? Þetta eru hrein öfugmæli í munni þeirra sem hugsa um það eitt að selja bestu eignir ríkisins, selja þjónustufyrirtækin, almannaþjónustuna og sérstaklega þjónustu sem hefur grundvallarþýðingu og hægt er að græða á.

Landssími Íslands er rekinn þannig að hann skilar miklum arði núna, eins og ég benti á áðan, áætlað er að hann skili 2,3 milljörðum í ár í arði til ríkisins og 6–7 milljörðum í hagnað á árinu, þannig að ekki er vandinn þar. En þjónustan sem hann á að veita, hana vilja landsmenn fá, við viljum fá gott fjarskiptasamband, gott fjarskiptanet um allt land. Það tryggir jöfnuð, búsetu og samkeppnishæft atvinnulíf um allt land. Auk þess er GSM-farsímaþjónustan grundvallaröryggistæki í byggð og á aðalþjóðvegum landsins og þess vegna er afar brýnt að ríkið axli þá skyldu sína og sjái til að þessi þjónusta verði um allt land.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til hv. samgöngunefndar og að hún fái þar góða, trausta og örugga afgreiðslu þannig að við getum afgreitt hana á þessu þingi sem afdráttarlausan vilja þingsins til þessa máls.