131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:34]

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Kennarar hafa nú fellt miðlunartillögu ríkissáttasemjara með um 93% atkvæða, og líklega er mun hærra hlutfall hjá grunnskólakennurum einum sér þar sem skólastjórnendur greiddu einnig atkvæði um sinn samning sem þeir töldu viðunandi. Þetta er mjög afgerandi niðurstaða og sýnir að þær áherslur sem ríkissáttasemjari setti fram í miðlunartillögunni voru ekki réttar, eins og hann hefur sjálfur sagt. Málið er á byrjunarreit að nýju. Tugþúsundir heimila eiga aftur í erfiðleikum vegna þessarar stöðu og óvíst er hvaða áhrif verkfallið mun hafa á framtíð þeirra barna sem fyrir þessu verða.

Ég mætti tveimur börnum á göngu klukkan 8 í morgun. Þau voru á ferð milli húsa, ekki með skólatöskur í höndunum heldur plastpoka, e.t.v. á leið til ömmu eða frænku. En ekki eru öll börn svo heppin að eiga slíkt athvarf.

Börnin og heimilin eru mun verr sett nú þegar verkfall hefst að nýju en þau voru fyrir, og var vandinn þó ærinn. Ítrekað hefur verið reynt að fá svör hæstv. forsætisráðherra eða viðbrögð ríkisstjórnar vegna þessa ástands en án árangurs.

Nú sný ég máli mínu til hæstv. menntamálaráðherra. Ég get ekki trúað því að ráðherra menntamála komi það ekki við þegar börn fá ekki kennslu svo vikum og mánuðum skiptir. Milljón skóladagar barna eru þegar farnir í súginn á þessu hausti og stefnir nú fram eftir næstu milljón. Hæstv. menntamálaráðherra sagði m.a. í viðtali við Morgunblaðið þegar verkfalli var frestað að börnin væru sigurvegarar dagsins. Sá sigur er að engu orðinn. Í stríði af þessu tagi verða engir sigurvegarar. Það tapa allir.

Kennarar eru gerðir að blórabögglum í deilunni og hafa verið það frá upphafi. Það eru þó tveir aðilar að þessari deilu auk þolendanna. Kennarar hafa stöðugt orðið að svara til saka á meðan sveitarstjórnir hafa staðið til hlés í skjóli launanefndar sem aftur ber fyrir sig bágan fjárhag sveitarfélaga og umboðsleysi sitt til að bjóða kjör sem gætu leyst þessa deilu.

Forsvarsmenn sveitarfélaga hafa lítt verið dregnir til ábyrgðar á þessu ófremdarástandi, hvorki af fjölmiðlum né almenningi hvað þá af öðrum stjórnvöldum. Það er þó ljóst að staða þeirra er afskaplega þröng.

Rétt er að minna á að skömmu fyrir verkfall lögðu kennarar fram tillögu að skammtímasamningi til vors sem hefði e.t.v. getað komið í veg fyrir þetta verkfall. Þar var gert ráð fyrir tveggja tíma kennsluafslætti sem nú er talið ásættanlegt, 3,5% hækkun strax og 3% um áramót. Þessi samningur hefði gefið ráðrúm til samninga til langs tíma en launanefnd hafnaði honum strax.

Máttleysi launanefndar sveitarfélaganna til að leysa þessa deilu er orðið ljóst og deilan í harðari hnút en nokkru sinni. Hver er þá ábyrgð ríkisins á málefnum grunnskólans? Ég vil nefna nokkra þætti en af ýmsu er að taka: ábyrgð menntamálaráðherra á að framfylgja lögum sem kveða á um fræðslu barna og ungmenna; samninga sem ríkið hefur gert við eigin starfsmenn, m.a. framhaldsskólakennara, sem eru síðan viðmið fyrir kröfur grunnskólakennara; stórauknar kröfur með lagasetningu um grunnskólann eftir flutning grunnskóla til sveitarfélaga til viðbótar við mjög vanreiknaðan heimanmund á sínum tíma; skattkerfisbreytingar sem hafa stórlega skert getu sveitarfélaga til að standa við skuldbindingar sínar.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Telur ráðherrann lengur verjandi að ríkisstjórnin aðhafist ekkert meðan börn á skólaaldri eru svipt lögboðinni skólagöngu vikum og mánuðum saman? Er ekki tími hjásetu ríkisstjórnarinnar löngu liðinn? Hvað telur ráðherrann að ríkisstjórnin geti gert til að höggva á þennan hnút, og þá hvenær? Eigum við e.t.v. að þurfa að þola þetta ástand til frambúðar?