131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:44]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þyrnirós svaf í heila öld. Þessi hæstv. menntamálaráðherra hefur sofið í heilt verkfall. Hæstv. menntamálaráðherra hefur sofið í sex vikur og mér sýnist á þessari ræðu að hæstv. menntamálaráðherra ætli að halda þeim svefni áfram. Það var ekkert að finna í ræðunni sem með einhverjum hætti gæti liðkað fyrir lausn verkfallsins. Ræðan var tröllauknar umbúðir utan um ákaflega lítið innihald. Hæstv. ráðherra hefur hingað til sýnt alveg ótrúlegt sinnuleysi í deilunni og það eina sem hún hefur gert hingað til er að tala niður til kennara og líkja þeim við þrýstihópa á borð við hunda- og kattaeigendur.

Frú forseti. Svo kemur hæstv. menntamálaráðherra hingað og talar um stöðugleikann í samfélaginu. Er það virkilega þannig að svefn hæstv. menntamálaráðherra sé svo djúpur að hún geri sér ekki grein fyrir því hvað er að gerast í þessu samfélagi? Er það virkilega þannig að sjálf hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki fylgst með því hvað það er sem kennarar gefa upp sem eina af ástæðunum fyrir því að þeir felldu miðlunartillöguna? Má ég benda hæstv. ráðherra á viðtöl t.d. við Jón Pétur Zimsen sem er í stjórn Kennarafélags Reykjavíkur og Önnu Maríu Jónsdóttur, trúnaðarmann í Vogaskóla, sem segja í fjölmiðlum að ein af ástæðunum fyrir því að ekki sé hægt að samþykkja miðlunartillöguna sé sú að verðbólgan sé að fara úr böndunum og það sé alveg ljóst að hún muni gera meira en að éta upp þær launahækkanir sem verið er að bjóða?

Með öðrum orðum, frú forseti, hafa lausatök ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra á efnahagsmálunum, leitt til þess að verðbólgan er farin úr böndum og það er ein af ástæðunum fyrir því að kennarar treystu sér ekki til að samþykkja miðlunartillöguna. Það er þess vegna sem ég segi: Þessi ríkisstjórn ber ábyrgð og hún á töluvert stóra sök á því að kennarar felldu miðlunartillöguna.