131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:46]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Það ástand sem nú hefur skapast má segja að ógni menntastigi þjóðarinnar. Kennaradeilan er komin í alvarlegan hnút. Hverjar eru lausnir? Þær eru sannarlega ekki einfaldar þó að ýmsir dragi upp hér afskaplega einfaldar lausnir á því, ríkið komi inn og þar með sé málið einfaldlega leyst. Málið er ekki svo einfalt.

Ég fullyrði að samfélagið haldi kennarastéttinni að mörgu leyti í gíslingu. Ég vísa þar m.a. til yfirlýsinga frá ýmsum verkalýðsfélögum og samtökum þeirra þar sem kveðið er á um það að ef gengið verði til samninga við kennara séu aðrir kjarasamningar einfaldlega lausir með þeim afleiðingum sem því fylgja.

Hvaða þýða slíkar yfirlýsingar? Fela þær í sér að mennt sé máttur og að menntamál skuli hafa ákveðinn forgang? Augljóslega ekki. Ég vil nota þetta tækifæri, frú forseti, til að skora á þessi sömu verkalýðsfélög og samtök þeirra til þess að gefa beinlínis út yfirlýsingu sem feli í sér viðurkenningu á því að mennt sé máttur og feli í sér viðurkenningu á því að þau muni una þeim samningum sem kennarar vonandi ná sem fyrst. Með slíkri yfirlýsingu væri a.m.k. stigið fyrsta skrefið í átt til lausnar og þar með í rauninni að losa kennarastétt úr þeirri gíslingu sem aðrir hópar halda henni í.

Með slíkri yfirlýsingu, frú forseti, væri jafnframt verið að viðurkenna að menntun sé mikilvæg og að menntamál þurfi, þjóðarinnar vegna, að hafa ákveðinn forgang.