131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Réttur barnanna okkar til að ganga í skóla er óumdeildur. Réttur kennara til að fara í verkfall er líka óumdeildur. Hann er hins vegar neyðarréttur og honum var beitt hér í mikilli neyð. Það verður að rifja það upp hér í þessari umræðu að kennarar settu fram viðræðuáætlun sína í janúar sl., 20. janúar lá hún á borðinu. Samningar voru lausir í mars og eftir ítrekaðar tilraunir kennara til að fá menn að samningaborði greiddu þeir í maí atkvæði um verkfall og verkfallið var boðað 20. september. Í millitíðinni komu kennarar með tilboð um samning til eins árs sem hefði getað forðað verkfalli. Það var ekki tekið í þá útréttu hönd.

Kennarar hafa gert allt sem í þeirra valdi hefur staðið til að koma í veg fyrir þetta verkfall. Launanefnd sveitarfélaga segir okkur ævinlega að sveitarfélögin hafi ekki bolmagn til að koma til móts við kröfur kennara. Hvers vegna hafa sveitarfélögin ekki bolmagn? Er það kannski vegna þess að tekjustofnanefndin hefur ekki unnið vinnuna sína, tekjustofnanefndin sem við viljum að vinni að því að finna réttláta skiptingu tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga? Eða er það vegna þess að samkomulagið frá 1996 sem við gerðum um flutning skólanna yfir til sveitarfélaganna stenst ekki tímans tönn, þarf endurskoðunar við?

Það er alveg ljóst að stjórnvöld í þessu landi bera ábyrgð á því í hvaða hnút deilan er. Stjórnvöld, þar með talin ríkisstjórn, verða að koma að lausn deilunnar. Hún er fólgin í því að sveitarfélögin fái aukið bolmagn til að standa við þær kröfur sem kennarar setja og við skulum ekki gleyma því að kennarar eru stéttin sem ber ábyrgð á grunnmenntun þessarar þjóðar, á grunnmenntun þjóðarinnar sem hefur ákveðið að hækka menntunarstig sitt. (Forseti hringir.)

Hvers metum við störf þeirra?