131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:57]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er hálfsorglegt að standa hér í dag og ræða enn um verkfall grunnskólakennara í landinu. Sorglegt, segi ég, því að auðvitað vonuðust menn til að samningar mundu nást löngu fyrir þennan tíma. Það hefur ekki gengið eftir og því miður er ekki margt í spilunum. En þó höldum við auðvitað í vonina á meðan deiluaðilar tala saman.

Nú ganga skoðanakannanir og umræðan út á að lög verði sett á kennara. Ég skil vel að sumir styðji þá hugmynd enda vill fólk fá skólana í gang og að lífið fari að ganga sinn vanagang. Mér hugnast ekki slík lagasetning og tek undir með hæstv. menntamálaráðherra að slíkt sé algjört neyðarúrræði. Ég tel að afleiðingar yrðu slæmar fyrir alla aðila og ekki síst fyrir nemendur.

Í fyrsta lagi hefur heyrst í umræðunni að margir kennarar muni segja upp störfum ef samningar nást ekki. Við megum ekki við að missa góða kennara. Í öðru lagi sýnir reynslan frá árinu 1989 að það tók mörg ár að fá kennara aftur inn í skólana til starfa. Mórallinn verður slæmur og þetta hefur skaðleg áhrif á nemendur.

Ég hef heyrt af því í morgun að kennarar hafi haft samband við samtök sín og túlkað stöðuna þannig að hv. menntamálanefnd hafi fjallað sérstaklega um lagasetningu á verkfallið. Sú túlkun er kannski ekki óeðlileg í ljósi umræðu í fjölmiðlum undanfarið. Ég vil taka það hér skýrt fram að þetta er ekki rétt og stjórnvöld hafa ekki tekið neina afstöðu til lagasetningar. Það er mjög mikilvægt að skilaboð frá stjórnvöldum séu skýr.

Ég vil segja hér að lokum að það er augljóst að samfélagið getur ekki endalaust horft á auðar skólastofur og spurningin sem við stöndum frammi fyrir er: Hvenær brestur þolinmæðin?