131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:59]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Almennt deila menn ekki um mikilvægi menntunar og þar af leiðandi skólastarfs, allra síst er ágreiningur um mikilvægi grunnskólans enda er eðli máls samkvæmt og samkvæmt orðanna hljóðanna sjálfur grunnurinn lagður þar að menntun okkar.

Íslenski grunnskólinn er í mjög örri þróun og ræður jákvæður uppbyggingarandi þar ríkjum. Vandinn er sá að þeir sem starfa innan veggja skólans sætta sig ekki við þau kjör sem þeim er boðið upp á og þess vegna ákvað kennarastéttin, ekki hluti hennar, öll kennarastéttin, um 4.500 manns, að leggja niður vinnu og knýja þannig fram betri kjör. Þetta er nokkuð sem menn gera ekki að gamni sínu, allra síst fólk sem hefur takmörkuð fjárráð. Ég hef vissulega áhyggjur af nemendum, börnunum og unglingunum, en ég hef líka áhyggjur af þessu fólki, 4.500 fjölskyldum sem heyja erfiða kjarabaráttu.

Nú er deilan í hnút. Sumum finnst sá hnútur vera illleysanlegur, svo illleysanlegur að þeir tala um lög eða gerðardóm. Gerðardómur þarf hins vegar að byggja á tilteknum forsendum, lögin þurfa að hafa innihald. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem fram komu hjá hæstv. menntamálaráðherra hvað þetta snertir. Á þessari hlið málsins virðist hún hafa skilning. Hún hefur hins vegar engan skilning á eigin ábyrgð eða ábyrgð ríkisstjórnarinnar í lausn deilunnar. Kannski á að tala við Sjálfstæðisflokkinn á því tungumáli einu sem hann skilur, leggja út af heilagri ritningu frjálshyggjunnar og tala um framboð og eftirspurn.

Það er eftirspurn eftir kennslu en það er ekki framboð á þeim kjörum sem boðið er upp á. (Gripið fram í: Einkaskóla?) Það þarf að horfast í augu við þetta. Ríkisstjórnin á að koma með yfirlýsingu um að hún ætli að treysta, bæta og styrkja tekjustofna sveitarfélaganna og á þeirri yfirlýsingu verður þessi deila leyst en aðeins á þeim grundvellinum.