131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[14:01]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Nú er hafið verkfall á ný eftir stutt hlé og það kemur í sjálfu sér fáum á óvart nema hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra sem héldu vart vatni af hrifningu yfir tillögu sáttasemjara. Hæstv. forsætisráðherra taldi að tillaga sáttasemjara fæli í sér mikla kjarabót og hæstv. menntamálaráðherra sá ástæðu til að fagna sérstaklega miðlunartillögunni en hún var í raun algerlega ótæk. Hvers vegna? Jú, samningar kennara voru bundnir mörg ár fram í tímann og eina uppsagnarákvæðið var þarnæsta haust, og það var ansi loðið. Ekkert tillit var tekið til starfsreynslu kennara, og miðað við þær blikur sem eru á lofti í efnahagsmálum er ekki gæfulegt að binda kjör sín mörg ár fram í tímann. Það er umræða í þjóðfélaginu um að verðbólgan sé mögulega að fara af stað og hún hefur farið af stað á þessu ári. Þess vegna er óskiljanlegt að botna ekkert í því að miðlunartillagan sé ekki samþykkt. Það var í rauninni furðulegt að leggja svona miðlunartillögu fram.

Í ljósi slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélaganna sem voru rekin með rúmlega tveggja milljarða halla á síðasta ári hefur maður vissan skilning á erfiðri aðstöðu þeirra. Það er kominn tími til þess að hæstv. menntamálaráðherra fari að átta sig á því að hún er ekki einungis menningarmálaráðherra, heldur menntamálaráðherra og þarf að fara að einbeita sér að öðru en að klippa bara á borða og opna og loka söfnum. Það er kominn tími til þess að fara að huga að grunnskólanum, hvernig eigi að fara að því að leysa þessa deilu og í rauninni að fara að vinna markvisst að lausn málsins.

Að lokum ætla ég að enda mál mitt á því að þrátt fyrir dapra ræðu sem var mjög innihaldslítil fyrr í umræðunni er það von mín að hæstv. menntamálaráðherra fari að átta sig á alvarleika málsins.