131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Lánasjóður sveitarfélaga.

269. mál
[14:22]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þm. Jón Gunnarsson veit stendur núna yfir umræða á milli ríkisins og sveitarfélaganna um tekjustofna sveitarfélaganna og þar fer þessi umræða meira eða minna fram. Ég vil líka draga fram að ríkið hefur núna komið með viðbótarfé til sveitarfélaganna upp á nokkur hundruð millj. kr. sem sveitarfélögin telja reyndar að sé of lítið. Eins og fram kom á ráðstefnu sem við sóttum bæði, ég og hv. þm. Jón Gunnarsson, telja sveitarfélögin að þar sé einungis um innborgun að ræða. Þau telja sig eiga meira fé útistandandi en það er mjög umdeilt.

Það er ómögulegt að segja á þessu stigi hvernig fer með framtíðarfyrirkomulag varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Að sjálfsögðu munu sveitarfélögin halda fram sínum hagsmunum og benda á þau atriði sem þau telja að þau ættu að fá bætt. Ég bind auðvitað vonir við að tekjustofnanefndin eða sú nefnd sem er að skoða fjármálastöðu sveitarfélaga og tekjustofna þeirra nái samkomulagi, en eins og staðan er núna er mikið tog þar á ferðinni. En ég held að við getum sameinast um það, ég og hv. þingmaður, að það sé mjög mikilvægt að hún komist að niðurstöðu en þetta er geysilega flókið af því að fjárhagsstaða sveitarfélaganna er svo misjöfn. Þau eru svo misstór og eiga svo misjafnlega erfitt eða misjafnlega létt með að sinna og leysa sín mikilvægu verkefni.