131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[15:18]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann hefur gefið en það er ýmislegt sem mér fyndist mega ræða betur, t.d. hvað varðar samskipti Umferðarstofu, lögreglu og þessarar nefndar. Sjálfsagt verður það gert í störfum samgöngunefndar.

En hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan að umfang umferðarslysa miðað við sjó- og flugslys væri gífurlegt og þess vegna væri ekki síður ástæða til að setja á fót þetta rannsóknarbatterí en þau sem væru starfandi fyrir vegna flugslysa og sjóslysa. Það er alveg rétt. Ég reikna með því að starf þessarar nefndar geti orðið mun meira en hinna tveggja sem eru starfandi fyrir vegna sjóslysa og flugslysa. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár er áætluð fjárveiting yfir 31 millj. kr. á hvora nefnd.

Mér finnst það segi sig sjálft að 10 milljónir duga ekki þó að hæstv. ráðherra segi að verið sé að tvöfalda fjárframlagið, þá er þetta kostnaðarmat fjármálaráðuneytis. Þetta er ekki eitthvað sem á að vera út í loftið heldur geri ég kröfu til þess, eins og ég sagði áðan, að þegar kostnaðarmat á frumvarpið kemur í fylgiskjali þá sé umsögn fjármálaráðuneytis rétt. Og hvernig metur fjármálaráðuneytið þetta umfang þegar kostnaðurinn á að vera 10 milljónir en er yfir 31 milljón áætlað á hvora hinna nefndanna?