131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[15:20]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það er töluvert meiri kostnaður við flugslysarannsóknirnar. Við fylgjumst t.d. með því þessa dagana þar sem starfsmenn og rannsóknarstjóri flugslysanefndar eru á ferðalögum til Austurlanda vegna rannsóknar og því fylgir feiknarlegur kostnaður. Það er líka mikill kostnaður sem fylgir rannsóknum vegna sjóslysa en þau eru annars eðlis. Það er kannski vegna þess að þar er hvert einasta slys og hver einasti viðburður rannsakaður.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur valið þann kostinn að taka fyrst og fremst alvarlegustu slysin til rannsóknar en ég tel líklegt að síðar muni þetta þróast áfram. Við megum ekki gleyma því að það er stutt síðan farið var að rannsaka umferðarslysin með þessum hætti. En auk þess þá nýtist rannsókn lögreglu á vettvangi að sjálfsögðu vel fyrir nefndina því þar er um tiltekin samlegðaráhrif að ræða.

Í tímans rás kann vel að vera að munum við vilja leggja meiri fjármuni í rannsóknir og þá þarf að skoða það. En ég undirstrika að á næsta ári erum við samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að tvöfalda þessi framlög frá því sem er á þessu ári og ég vona að þingmenn samþykki þá tillögu. En að sjálfsögðu þarf að skoða hvort þarna þurfi að gera betur og ef svo er þá hefur samgönguráðuneytið tiltekna fjárhæð til umferðaröryggisaðgerða á safnlið í ráðuneytinu og því er hægt að bregðast við ef á þarf að halda.