131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[15:23]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég er fyrst og fremst að gera athugasemdir við hér er að kostnaðarmat fjármálaráðuneytis á að vera á heildarkostnaðinn sem frumvarpið felur í sér. Það á ekki að miðast við þá upphæð sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga heldur mat á raunkostnaði sem framkvæmd þessara laga mun fela í sér. Og það er alveg ljóst að það verður meira en 10 milljónir. Það er það sem málið snýst í raun og veru um.

Nefndin hefur mjög víðtækar heimildir og þó að hún styðjist við skýrslur lögreglu, skýrslur starfandi heilbrigðisstétta, sem eru þegar á launum hjá ríkinu, þá kostar tími þeirra einstaklinga sem á að nýta þarna peninga. Og þegar þarf að fara yfir skýrslu með lögreglunni þá kostar það peninga og tími lögreglunnar er tekinn í það.

Þetta þurfum við að hafa í huga en ég fagna því auðvitað ef ráðuneytið hefur borð fyrir báru og getur lagt út meira fjármagn ef farið er umfram þessar tíu milljónir. En ég geri hins vegar kröfu um að kostnaðarmat fjármálaráðuneytis á frumvörpum sem hér eru flutt sé jafnan raunhæft. Þar verður að vera um raunhæfar tölur að ræða, ekki óskhyggju, og ef Alþingi tekur ákvörðun um að skipa þessa nefnd með starfandi forstöðumanni þá verði henni gert kleift að sinna hlutverki sínu samkvæmt því sem segir í frumvarpinu en ekki sniðinn svo þröngur stakkur að hún geti það ekki.