131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Sérkennslu- og meðferðardagdeild fyrir börn með geðrænan vanda.

24. mál
[15:46]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í dag er hér um mjög athyglisvert og gott mál að ræða. Þetta mál er mjög mikilvægt bæði fyrir þau börn sem eiga í vanda og einnig fyrir önnur börn sem eru samvistum við einstaklinga með geðraskanir og hegðunarvandkvæði í skólakerfinu.

Ég þekki bæði sem foreldri og fyrrverandi kennari mörg dæmi um börn með alvarleg hegðunarvandamál í bekkjardeildum og um einstakling með geðröskun í almennri bekkjardeild og hvaða áhrif það hefur á bekkjarheildina og samfélagið að hafa slíka einstaklinga innbyrðis og hvílíkur léttir það er bæði fyrir viðkomandi einstakling og bekkjarheildina þegar viðeigandi úrræði fást loksins fyrir þann sem á við slíkan vanda að etja.

Það er mjög athyglisvert að ræða þetta mál einmitt núna í því umhverfi sem við erum, þ.e. þegar deila kennara og sveitarfélaganna stendur yfir og fjárhagur sveitarfélaganna er stöðugt í umræðunni því að þetta er einmitt dæmi um það þegar sveitarfélögin taka ein á sig hlutverk sem heilbrigðiskerfið ætti líka að axla með þeim eins og bent hefur verið á í þessari umræðu.

Ég þekki dæmi um einhverft barn sem hefur beðið árum saman eftir formlegri greiningu og sveitarfélagið hefur tekið að sér að axla þær byrðar sem fylgja þeirri þjónustu sem þetta barn þarf í skólakerfinu. En sveitarfélagið fær ekki þær endurgreiðslur sem því ber og sem það hefði fengið strax ef greining hefði legið fyrir. Það er alveg klárt að um er að ræða einhverft barn því að í þessu tilfelli sem ég þekki á þetta einhverfa barn systkini sem hefur verið greint og tvö frændsystkini sem hafa verið greind þannig að einkennin eru alveg skýr. En þetta barn sem ég er að ræða um er orðið það gamalt að það er alltaf sett aftar á biðlistann. Það færist ekkert fram af því að yngri börnin ganga fyrir. Þetta er enn eitt dæmið um að sveitarfélögin axla vel ábyrgðina og það hlutverk sem þeim er ætlað í grunnskólalögunum en ríkið sleppur því forsvarsmenn sveitarfélaganna gera sér grein fyrir því að með því að sinna vel börnunum meðan þau eru á grunnskólaaldri er verið að vinna fyrirbyggjandi starf.

Við í fjárlaganefnd heyrðum einmitt frásögn ungrar konu í morgun sem hafði horft upp á bróður sinn fara á mjög erfiða vegu. Hún glímdi sjálf við svipaða erfiðleika en tók öðruvísi á þeim og gat með aðstoð haldið sig á góðri leið og réttri braut, skulum við segja, á meðan bróðir hennar var og er í vanda. Við heyrðum því í raun talandi dæmi um það í morgun hversu mikilvægt er að taka á vandamálunum eins og fljótt og mögulegt er.

Með því að samþykkja þá þingsályktunartillögu sem hér er fyrirliggjandi erum við að veita einstaklingum möguleika á hamingjusömu lífi og að þeir verði nýtir og góðir þjóðfélagsþegnar einmitt með þjónustu við þá á uppeldisskeiði samanber söguna sem ég sagði áðan og hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi einnig.

Vonandi fær þessi þingsályktunartillaga betri og skjótari afgreiðslu en reyndin varð á síðasta þingi.