131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Sérkennslu- og meðferðardagdeild fyrir börn með geðrænan vanda.

24. mál
[15:50]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst taka undir með þeim tveimur hv. flutningsmönnum sem hafa hér mælt fyrir tillögunni, Margréti Frímannsdóttur og Jóni Gunnarssyni og svo hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur sem mælti hér áðan. Ég er einn flutningsmanna tillögunnar og hér er um að ræða mjög mikilvæga tillögu sem getur skipt sköpum í meðferðarúrræðum fyrir þá einstaklinga í okkar samfélagi sem eiga kannski hvað erfiðast af öllum, þ.e. börn sem glíma við geðrænan eða félagslegan vanda eins og rakið var hérna mjög ítarlega og af mikilli vandvirkni í máli annarra flutningsmanna sem hér hafa talað í dag.

Hvernig til tekst á grunnskólagöngu og barnsaldri þessara einstaklinga skiptir öllu máli fyrir það hvernig þeim mun vegna í lífinu til framtíðar. Fari hlutir úrskeiðis í grunnskólagöngu barna sem búa við slík alvarleg vandamál, geðræn og félagsleg, þá er mjög erfitt að búa svo um hnútana að þau rétti úr kútnum síðar.

Eins og segir í tillögunni þá skiptir rétt námsumhverfi öllu máli varðandi úrræði fyrir þessi börn, þ.e. að þau geti komist út úr umhverfi hins hefðbundna skóla sem hentar oft mjög illa þegar glímt er við þeirra alvarlegu og erfiðu vandamál sem um leið skapa nýja og aðra erfiðleika fyrir önnur börn sem þurfa á hefðbundinni kennslu að halda en búa ekki svo illa að eiga við slíka erfiðleika að stríða. Margfeldisáhrifin af því að börn með alvarleg geðræna og félagslega erfiðleika þurfa að vera í hinum almenna skóla og venjulegum bekkjum eru því veruleg. Því er mjög brýnt að bregðast við því með því að koma á fót úrræðum eins og þessi tillaga kveður á um. Bundnar eru miklar vonir við að hún verði samþykkt núna frá Alþingi. Þar ályktar Alþingi að fela heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra að ganga frá samningum um stofnun sérkennslu- og meðferðardagdeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda og leggja fyrir Alþingi nauðsynlegar lagabreytingar eigi síðar en 1. október 2005. Eftir tæpt ár mun þá Alþingi vera að vinna að lagabreytingum sem bæta úrræði þessa viðkvæma hóps verulega. Þetta eru þau börn sem þurfa á langmestum stuðningi að halda og þetta eru þeir einstaklingar í þjóðfélaginu sem þurfa á langmestum og vandvirknislegum stuðningi að halda til að þeir megi fóta sig í lífinu og vinna bug á erfiðleikum sínum og vandamálum þannig að þeir komist út í lífið sem betri og hæfari einstaklingar til að glíma við samfélagið allt og taka þátt í því af fullum krafti en leiðist ekki út í að verða utangarðsmenn, eiturlyfjasjúklingar, glæpamenn eða margir aðrir sem við sjáum daglega á götum borgarinnar og víða annars staðar. Þetta ógæfufólk á sér margt varla viðreisnar von af því að það fékk ekki þau úrræði sem það þurfti að fá þegar það var á barnsaldri, á grunnskólaaldri. Náum við að veita börnum með geðrænan og félagslegan vanda þau úrræði sem þau þurfa á að halda strax á barnsaldri, ná þannig utan um vandamál þeirra, ná þannig að hjálpa þeim að vinna sig út úr vandanum þá er mikill sigur unninn og mörgum mannslífum bjargað og mörgum fjölskyldum forðað frá ólýsanlegum harmleikjum, samanber sögur sem flestir þekkja úr sínu umhverfi.

Lengra ætla ég ekki að hafa þetta heldur tek undir orð þeirra sem hafa mælt hér áður og hvet Alþingi eindregið til að veita þessari mjög svo góðu og vönduðu tillögu brautargengi.