131. löggjafarþing — 23. fundur,  10. nóv. 2004.

Lokun veiðisvæða á grunnslóð.

[13:31]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég lýsi eftir hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins til að ræða þá staðreynd að sjávarútvegsráðuneytið hefur lokað stærstum hluta grunnslóðar á sunnanverðum Breiðafirði fyrir línuveiðum. Þetta gerðist með reglugerð sem ráðuneytið gaf út og tók gildi 6. nóvember. Ég vek athygli á því að þessi lokun er ótímabundin.

Þetta veiðibann hefur vakið hörð viðbrögð meðal þess fólks sem á afkomu sína undir fiskveiðum og fiskvinnslu, ekki síst á norðanverðu Snæfellsnesi en þessi mið eru heimamið báta sem róa frá höfnum þar. Bannið þvingar flotann til að sækja á dýpri mið lengra frá landi og það býður hættunni heim á þessum árstíma þegar veður eru válynd. Sóknarmöguleikar bátanna eru stórlega skertir. Þessu veiðibanni hefur verið líkt við að 100–200 manna vinnustað sé lokað fyrirvaralaust í einu vetfangi.

Ekki er annað að sjá en að þessi lokun sé nánast byggð á geðþóttaákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar. Hún nær yfir gríðarlega stórt svæði, allt frá Gufuskálum í vestri og til mynnis Hvammsfjarðar. Bannið er sagt koma til vegna þess að mikið af smáfiski sé á þessari slóð og nauðsyn beri til að vernda hann svo að veiða megi hann seinna þegar hann er orðinn stærri.

Málið er samt að sáralítil mælingagögn liggja til grundvallar. Þorskafli sem lengdarmældur var hjá línubátum var rétt við þau mörk sem reglugerðir kveða á um og það er að fjórðungur veiddra þorska megi ekki vera undir 55 sentímetrum að lengd. Rétt rúm 25% af afla féllu undir þessa skilgreiningu en megnið af honum var á bilinu 50–55 sentímetrar, þ.e. fiskur sem er hálfur metri að lengd. Sjómenn hafa bent á að þeir telji að þessi fiskur sé orðinn kynþroska, hann er með hrognasekki. Einnig benda þeir á að dregið hafi úr vexti þorsks á þessum slóðum og hann sé því minni en áður miðað við aldur. Margt bendir til að það sé rétt. Ekki er tekið mið af neinum líffræðilegum þáttum við þessa ákvörðun, þátta á borð við aldur miðað við lengd, kynþroska og holdafar fisksins. Þetta er mjög ámælisvert. Atvinnuöryggi og lífsafkoma fólks er í hættu.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra:

Hvers vegna hlustar hann ekki á fiskifræði sjómanna í þessu máli, manna sem eru á fiskimiðunum dögum saman? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þessi svæði verði tafarlaust opnuð fyrir veiðum áfram, og lög og reglur um svæðalokanir endurskoðaðar?