131. löggjafarþing — 23. fundur,  10. nóv. 2004.

Lokun veiðisvæða á grunnslóð.

[13:38]

Gísli S. Einarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu alvarlega máli. Það sem er að gerast þarna er að verið er að loka fyrir möguleika smábáta til sjósóknar á mjög stóru svæði. Atvinnuöryggi hundruða manna er í hættu, þ.e. beitningar- og fiskverkunarfólks, afkomu þess er raunverulega stefnt í voða. Það eru ekki nægar forsendur eftir því sem ég hef upplýsingar um til að grípa til þessara aðgerða. Það versta er að þessari stjórnvaldsaðgerð eða reglugerðarlokun sem hefur svona víðtæk áhrif er beitt án samráðs við viðkomandi aðila. Það finnst mér það versta vegna þess að yfirlýst stefna Hafrannsóknastofnunar er að hafa meira samráð við sjómenn. Í þessu tilviki er það alls ekki gert.

Ég vil gera harða athugasemd við þetta og óska eftir því við hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann beiti sér fyrir því að nú þegar verði samráðsfundur með þeim aðilum sem þarna eiga hlut að máli. Það er merkilegt að kynnast því að verið er að loka fyrir fiskveiðar á þorski sem er 50–55 sentímetra langur. Hann er sennilega fjögurra ára því hann er orðinn kynþroska samanber fisk sem ég veiddi inni í Hvalfirði um síðustu áramót. Ég fékk í verulegu magni 55 sentímetra þorsk stútfullan af hrognum, lét Hafró vita en fékk engin svör. Þetta er kannski dæmi um öfgar á hinn veginn.

Ég ítreka áskorun mína til hæstv. sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir því að haldinn verði fundur nú þegar eða á næsta mögulega degi til þess að ljúka málinu við Breiðfirðingana.