131. löggjafarþing — 23. fundur,  10. nóv. 2004.

Lokun veiðisvæða á grunnslóð.

[13:40]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þetta mál til umræðu. Hér erum við að ræða ákveðna stjórnvaldsaðgerð sem er lokun á stórum hluta Breiðafjarðar fyrir línuveiðum. Staðan er slík við Breiðafjörð að hörpudisksveiðin hefur hrunið. Veiðar á hörpudiski eru ekki leyfðar en svo var þó áður og slíkar veiðar voru til skamms tíma einn aðalatvinnuvegur fólksins í bæjunum, bæði í Stykkishólmi og Grundarfirði. Nú voru þarna um 70 bátar sem hafa verið á línu og skyndilega kemur boðun um þessa lokun með tveggja sólarhringa fyrirvara. Um 200 manns hafa atvinnu sína af þessu og ég vil vekja athygli á því að þetta eru línuveiðar, sú veiðiaðferð sem er talin fara hvað best með fiskinn.

Ég held að mjög rík ástæða sé til að hæstv. sjávarútvegsráðherra kanni þau vinnubrögð sem beitt er við lokanir af þessu tagi sem snerta líka svo marga íbúa eins og í þessu tilviki. Það er sjálfsagt að sýna varúð og fyllstu gát í fiskvernd en vinnubrögðin verða að vera þannig að þau séu bæði trúverðug og þeim framfylgt af sanngirni. Mér sýnist að þarna þurfi bæði að vera með tryggari stoðir hvað varðar rannsóknir, til að taka svona afdrifaríkar ákvarðanir um ótímabundna lokun, og hins vegar er líka brýnt að vera með mjög náið samráð við heimafólk um framkvæmd á slíkum aðgerðum.