131. löggjafarþing — 23. fundur,  10. nóv. 2004.

Lokun veiðisvæða á grunnslóð.

[13:43]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Það eru eðlilegar ástæður sem liggja að baki því hjá Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðuneytinu að fylgjast með fiskimiðum og veiðum í því skyni að vernda fiskstofnana fyrir ofveiði eða veiði á smáum fiski. Menn telja óskynsamlegt að veiða hann í of ríkum mæli. Hins vegar ber að líta til fleiri sjónarmiða en fiskstofnanna einna í því sambandi og eitt af þeim sjónarmiðum er atvinnulífið sjálft sem er byggt á þessari atvinnugrein og störf þess fólks sem á atvinnu sína undir þessari sjósókn. Við ákvarðanir um friðun og í hve ríkum mæli menn taka ákvarðanir í þeim efnum verða þeir að taka mið af því að ganga ekki of nærri atvinnuhagsmunum of margra. Ég hvet hæstv. ráðherra til að líta á málið í því ljósi og veit að hann hefur skilning á því eftir umræður um svipað mál annars staðar á landinu.

Ég vil einnig hvetja ráðherrann til að líta á tvö önnur atriði. Ég fagna því reyndar að það kom fram í máli hans að hann mundi beita sér fyrir því, annars vegar að skoða betur gögn um aldur á þorski og hins vegar að gera frekari rannsóknir á stærð þorsksins. Ég hef fengið fréttir af nýlegri athugun í þeim efnum eftir að bannið tók gildi sem leiddi í ljós að stærð á fiski, þorski í þeirri veiðiferð, var yfir lágmarksstærðarmörkum. Ég tel fyllstu ástæðu til að líta á þetta mál aftur og ég fagna því að fram kom hjá hæstv. ráðherra að hann muni beita sér fyrir því og endurskoða málið í ljósi þess.