131. löggjafarþing — 23. fundur,  10. nóv. 2004.

Lokun veiðisvæða á grunnslóð.

[13:45]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um það að ræða að skerða atvinnufrelsi manna og stjórna fiskveiðum eingöngu eftir tommustokk og stærðfræði. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrir liggi upplýsingar um næringarástand fisksins og kynþroska og um hver vöxtur fisksins er. Ég get ekki séð annað en að menn renni blint í sjóinn, taki upp tommustokkinn, mæli og fái niðurstöðu: Ja, hér eru veiðar bannaðar.

Hæstv. ráðherra talaði um að um hefðbundna aðferð væri að ræða við að stjórna fiskveiðum. Ég held að það sé orðið löngu tímabært og er sannfærður um að við ættum að skoða líffræðina í þessu sambandi, ekki eingöngu stærðfræði og einhverja tommustokksfræði vegna þess að það hefur ekki reynst vel.

Ég skora á hæstv. ráðherra að segja okkur frá því hvort þessir þrír þættir sem ég nefndi hafi verið skoðaðir, næringarástand, kynþroski og vöxtur fisksins. Hafi það ekki verið gert er það skerðing á atvinnufrelsi þeirra 200 manna sem komast þarna ekki á sjóinn. Þetta er fáránleg aðferð og í raun furðulegt að menn skuli ætla að halda svona áfram vegna þess að reynslan af stjórninni og hinni sífelldu vernd á smáfiski er einfaldlega ekki góð.